Fótboltinn hefur gefið mér tækifæri til að hitta fólk frá löndum og með bakgrunn sem ég hefði aldrei kynnst annars. Sem skólastrákur í Newbury þekkti ég strák af indverskum uppruna sem hét Raj. Þegar ég gekk til liðs við Chelsea 10 ára gamall víkkaði sjóndeildarhringurinn hjá mér. Í nýja liðinu mínu vorum við með leikmenn sem komu upprunalega frá ýmsum stöðum eins og Kongó og Íran sem og ‘götukrakka’ úr miðborg London.
Ég fékk strax að kynnast gríninu í fótboltaheiminum og ég var kallaður ‘sveitastrákur’ eða ‘bóndinn Sam‘ (af þjálfurunum líka) því að ég kom frá bæ sem er í sveit en ekki í borginni. Ég mætti síðan bestu ungu leikmönnunum í London og nálægum stöðum. Millwall, var eitt besta liðið þegar ég byrjaði að æfa, aðallega vegna þess að þeir voru með stærstu leikmennina sem voru í boði í Suðaustur-London. Liðið var nánast fullt af afrískum leikmönnum, sumir þeirra töluðu varla ensku og voru nýkomnir til landsins. Foreldrar eru þekktir fyrir að falsa pappíra og segja að börnin þeirra séu yngri en þau eru í raun og veru til að fá bætur frá yfirvöldum í lengri tíma. Leikmenn Millwall fóru úr treyjunum og ég sá vöðva á stöðum þar sem ég hafði aldrei séð þá áður. Þetta var eins og 11 eintök af Mike Tyson á móti 11 ára strákum.
Bakgrunnurinn hjá sumum leikmönnunum sem ég spilaði með hefði ekki getað verið fjarlægari frá mínum bakgrunni. Ég man að eitt sumarið spiluðum við á móti í Keee skólanum og einn af leikmönnunum gat ekki spilað síðustu þrjá dagana á mótinu því hann varð að mæta fyrir dóm vegna nauðgunar. Hann var 13 ára. Annar gat ekki spilað með okkur einn sunnudaginn því að hann rotaðist kvöldið áður þegar hannn var sleginn með járnröri í götubardaga í Harlesden en það er staður í vestur-London þar sem menn lifa við sérlega erfiðar aðstæður. Hann var 14 ára. Einn liðsfélagi minn sagði að ég gæti pantað hvaða farsíma sem er af honum. Þegar ég spurði hvaðan þeir kæmu sagði hann bara: ,,Við stelum þeim bara af öðru fólki.”
Þegar ég varð atvinnumaður 16 ára gamall þá var mér hent í djúpu laugina. Grínið í búningsklefanum var áhugavart vægast sagt, sérstaklega fyrsta árið. Þú þurftir að læra að standa á eigin fótum en þegar þú sannaðir að þú gætir það þá var þetta mjög gaman. Þetta var staður þar sem allir vildu það sama, spila með aðalliðinu, svo samkeppnin var mikil. Við vorum líka með erlenda leikmenn og það var í fyrsta sinn sem ég kynntist því. Ég var núna í hóp með leikmönnum frá Brasilíu, Portúgal, Hollandi, Ítalíu, Frakklandi og Þýskalandi meðal annars. Þetta er reynsla sem þú lærir ekki í skóla eða með bók. Mér fannst þetta vera heillandi og ég lærði mikið um mismunandi menningu og hegðun.
Englendingar hafa sjálfkrafa óbeit á Þjóðverjum út af heimsstyrjiöldunum. Hins vegar voru Seb (Sebastian Kneissl) og Rob (Robert Huth) frábærir strákar með frábæran húmor. Þeir elskuðu líka David ‘Mitch Buchanan’ Hasselhoff. Hann er goðsögn í Þýskalandi, þeir þekkja öll lögin hans (ég vissi ekki einu sinni að hann hefði sungið). Það var ekki þeim að kenna að Hitler fór inn í Pólland árið 1939 er það?
Við vorum með hollenskan náunga, Mbark, hann var múslimi og gat ekki borðað í dagsbirtu á meðan Ramadan stóð yfir. Hann átti í erfiðleikum þegar það voru tvær æfingar á dag! Hann ólst upp við að spila fótbolta á götunni í innflytjendahverfi í Amsterdam og spilaði með Ajax. Hann var leiknasti fótboltamaður sem ég hef séð á ævi minni. Við vorum með þrjá Suður-Afríkumenn sem sögðu mér mikið um það hvernig er að alast upp í Soweto í Jóhannesarborg, ættflokkinn sem þeir koma úr og ýmis tungumál sem þeir tala. Þarna voru fjórir Nígeríumenn sem ólust upp í kofa og Georgíumaður sem hljómaði eins og Borat og keyrði um á Mercedes sem mafían keypti fyrir hann þegar að lið hans varð meistari í heimalandi hans. Þarna voru líka tveir Ítalir sem voru vanir því að standa Curva Nord stúkunni með ulta stuðningsmönnum Lazio sem eru hægrisinnaðir rasistar. Að lokum kynntist ég Íslendingi og endaði hérna.
Núna er ég í stöðu útlendings. Þegar erlendir leikmenn komu til okkar (á Englandi) og gátu ekki talað ensku þá sögðu sumir leikmenn þeim að það væru frjálsar snertingar þegar staðreyndin var sú að við vorum að spila með eina snertingu. Þeir hlógu síðan þegar að leikmennirnir fóru hlaupandi með boltann í markið og þjálfararnir brjáluðust. Ég og bróðir minn höfum aldrei lent í svona, kannski eru liðsfélagar okkar hér bara þroskaðari.
Þú áttar þig á því hversu erfitt það hefur verið fyrir leikmenn sem þú spilaðir með að aðlagast, sérstaklega þegar þeir tala ekki þekkt tungumál eins og ég hef með enskunni. Margir semja 16 ára gamlir og það að fara frá landinu þínu, fjölskyldunni þínu og öllu sem þú ert vanur svona ungur árum er ekki fyrir alla. Þess vegna er þetta stór spurning fyrir efnilega leikmenn hér á Íslandi. Hvenær er rétti tíminn til að fara? Hvernig munu þeir bregðast við að vera ekki lengur ‘stórstjarnan’ og kannski vera meðhöndlaður á verri hátt en aðrir leikmenn? Það eru ekki allir leikmenn í liðum sem bjóða útendinga velkomna svo hefur leikmaðurinn karakterinn til að bregðast við því? Hvernig munu þeir bregðast við að hafa lítinn sem engan stuðning frá fjölskyldu sinni og nánustu vinum? Þú getur einungis komist að þessu með því að reyna og það getur gert gæfumuninn fyrir leikmann. Þeim getur mistekist að aðlagast eða slá í gegn. Kannski missa þeir sjálfstraust og detta aftur fyrir leikmenn sem þeir voru betri en áður, eða, þeir geta orðið næsti Eiður Guðjohnsen. Verðlaunin fyrir velgengi eru frábær. Allir ungir strákar vilja verða toppfótboltamenn. Þess vegna er nánast ómögulegt að hafna svona tækifærum. Ef að þú grípur ekki tækifærið og annað tækifæri kemur ekki upp, þá ertu kominn með þá leiðinlegu tilfinningu að hugsa: Hvað ef?
Ég get einungis talað af eigin reynslu en ég hef lært rosalega mikið um lífið og þess vegna er ég mjög þakklátur fótboltanum.