„Ég held að af þessum kostum sem voru í boði af erlendum þjálfurum sé hann sá hæfasti,“ segir Sigurður Ragnar Eyjólfsson, fræðslustjóri KSÍ, um Lars Lagerback sem tilkynntur var sem landsliðsþjálfari Íslands á föstudaginn.
Sigurður Ragnar var í viðtali í útvarpsþætti Fótbolta.net á X-inu í gær þar sem málefni landsliðsins voru rædd.
„Maður veit aldrei fyrirfram hver nær árangri. Hann hefur náð gríðarlega góðum árangri með Svíþjóð og hefur meiri reynslu en flestir því hann hefur verið það lengi með landslið.“
Það eru mörg ár síðan Sigurður kynntist Lagerback. „Ég hef unnið sem fræðslustjóri síðan 2002 og hluti af starfinu er að sækja ráðstefnur á vegum UEFA og þar hefur hann verið mjög áberandi. Hann situr í nefnd UEFA um þjálfaramenntun,“ segir Sigurður.
„Leiðir okkar hafa legið saman í gegnum það að hann kom hérna og tók út námskeiðin okkar fyrir hönd UEFA og veitti gæðastimpil á UEFA A þjálfaragráðuna okkar. Svo þegar ég tók Pro License námskeiðið í Englandi var hann þar að taka út námskeiðið hjá Englendingunum. Hann hefur verið leiðandi í þjálfaramenntun í Evrópu.“
Ekki til mont hjá Lagerback
„Hann er mjög vel að sér varðandi taktík. Hann býr yfir mikilli þekkingu og er tilbúinn til að deila þeirri þekkingu. Ég held að við munum eiga von á því að íslenska landsliðið muni spila mjög skipulega í vörn. Hann hefur verið hrifinn af því að nota tvo frammi en ég veit ekki hvort hann muni þröngva því leikkerfi upp á íslenska liðið. Hann fær nokkra æfingaleiki til að feta sig áfram en ég býst við öguðum og skipulögðum leik.“
Hann virkar á mig sem mjög hógvær maður miðað við hversu langt hann hefur náð á sínum ferli. Hann ber virðingu fyrir öllum og er lítillátur. Hann hefur farið einhver sex skipti á stórmót svo hann hefur alveg efni á því að monta sig en það er ekki til hjá honum. Ég veit að honum þykir vænt um Ísland og er hrifinn af hugarfari íslenskra leikmanna. Hann ber með sér virðingu og hefur þægilega nærveru, það er gott að vinna með honum.“
Náum ekki árangri strax
„Hann er fagmaður og ég held að hann muni fljótt ávinna sér virðingu leikmanna,“ segir Sigurður sem var orðaður við starf aðstoðarlandsliðsþjálfara karlalandsliðsins. Heimir Hallgrímsson var ráðinn í það starf.
„Lars hefur minnst á það við mig að hann vilji gefa mér eitthvað hlutverk kringum karlalandsliðið. Hvað það verður veit ég ekki. Ég hef sagt við hann og Heimi að ég er tilbúinn að aðstoða þá og það er hluti af mínu starfi sem fræðslustjóri að styðja við bakið á landsliðsþjálfurunum. Ég hef allavega áhuga á að vera fluga á vegg og sjá hvernig hann vinnur því ég vill læra af honum.“
Margir efnilegir leikmenn eru að koma upp í A-landsliðið og segir Sigurður að þeir þurfi tíma. „Við vitum sennilega að við munum gera fullt af mistökum og töpum einhverjum leikjum því við erum með ungt lið. Þegar uppi verður staðið þá getum við sagt að árið 2016 verðum við með lið sem gæti verið að toppa. Ef við tökum sénsinn á þessum ungu leikmönnum og spilum þeim þá eru kannski einhverjir eldri leikmenn sem þurfa líka að vera í liðinu og deila reynslu. Við náum ekki árangri strax því það þarf tíma fyrir þessa stráka."
Hægt er að hlusta á viðtalið við Sigurð Ragnar í heild sinni hér að ofan.