Guimaraes, Silva, Van Persie, Yamal, Gil, Giroud og fleiri í slúðurpakkanum
   mán 05. desember 2011 22:05
Elvar Geir Magnússon
England: Friend og Reina með slæm mistök í tapi Liverpool
Andy Carroll var týndur í kvöld.
Andy Carroll var týndur í kvöld.
Mynd: Getty Images
Fulham 1 - 0 Liverpool
1-0 Clint Dempsey ('85 )
Rautt spjald: Jay Spearing (Liverpool '72)

Fulham vann óvæntan en gríðarlega mikilvægan sigur í fallbaráttunni í kvöld þegar liðið vann 1-0 sigur á Liverpool. Dómarinn Kevin Friend var í aðalhlutverki í ásamt aðstoðarmönnum sínum.

Liverpool á í ótrúlegu basli með að skora mörk og hefur alls þrettán sinnum skotið í tréverkið það sem af er tímabili, mun oftar en nokkurt annað lið. Tvívegis átti liðið skot í stöng í kvöld.

Liverpool var betra liðið í fyrri hálfleiknum og var óheppið að skora ekki þegar skot Jordan Henderson hafnaði í stönginni.

Leikurinn var opinn og sótt á báða bóga. Gestirnir voru líklegri og náði Luis Suarez meðal annars að skora mark eftir skemmtileg tilþrif en það var dæmt af. Suarez var flaggaður rangstæður en endursýningar sýndu að það var rangur dómur.

Vendipunktur leiksins kom á 72. mínútu þegar Jay Spearing fékk beint rautt spjald frá Friend. Spearing fór í boltann en rann svo og það hefur eitthvað ruglað Friend sem lyfti ranglega rauða spjaldinu.

Í kjölfarið var Andy Carroll, sem hafði verið gífurlega slakur í leiknum, tekinn af velli. Þrátt fyrir breytt leikkerfi tók Fulham völdin á vellinum og mark frá þeim lá skyndilega í loftinu. Það kom svo á 85. mínútu.

Clint Dempsey náði frákastinu eftir að Pepe Reina, markvörður Liverpool, hélt ekki boltanum eftir lélegt skot Danny Murphy. Hrikaleg mistök hjá Reina sem kostuðu mark.

Ekki tókst Liverpool að jafna og liðið situr því enn í sjöunda sæti. Martin Jol og félagar hans í Fulham lyftu sér upp í 13. sæti og eru nú fimm stigum fyrir ofan fallsæti.
banner
banner