Liverpool reynir aftur við Zubimendi - Isak til Arsenal - Wirtz á óskalista Bayern
   fös 10. febrúar 2012 17:20
Magnús Valur Böðvarsson
Pistill: Pistlar á Fótbolta.net eru viðhorf höfundar og þurfa ekki endilega að endurspegla viðhorf vefsins eða ritstjórnar hans.
Fjölgun deilda yrði rétt skref fyrir íslenskan fótbolta
Magnús Valur Böðvarsson
Magnús Valur Böðvarsson
Mynd: Getty Images
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
Ársþing Knattspyrnusambands Íslands verður haldið á morgun laugardag á Hilton hótelinu. Þar verður meðal annars fjallað um tillögu þess að fjölga deildum úr fjórum í fimm.

Það eru Leiknismenn og dótturfélag þeirra KB sem koma með tillöguna og ætla ég að rýna í kosti hennar og helstu rök þess af hverju hún ætti að vera samþykkt.

Eins og staðan er nú eru fjórar landsdeildir: Efsta deild, 1.deild, 2.deild og 3.deild. Efstu þrjár deildirnar eru allar 12 liða deildir þar sem leikið er heima og heiman. Í þriðju deild karla eru hinsvegar í kringum 30 lið sem berjast um tvö sæti sem gefa rétt á að leika í 2. deild. Fyrst þarf að komast í gegnum riðlakeppni og tvö efstu liðin þar fara í úrslitakeppni og hefst svo útsláttarkeppni þar sem leikið er heima og heiman.

Þarna spila heppni í raun of stórt hlutverk, nánast eins og bikarkeppni um það hverjir komast upp. Á seinasta ári komust KV og KFR upp í 2.deild en bæði liðin höfðu komist áfram úr úrslitakeppninni með því að vinna andstæðinga sína með marki á útivelli. Ég ætla ekki að efast um að bæði þessi lið voru með sterkari liðum deildarinnar en það voru þó mörg lið sem sitja eftir í hrærigrautnum, hinni erfiðu þriðju deild.

Tillagan sem kosið er um á morgun felur í sér að bætt verði við 10 liða deild frá og með næsta ári sem yrði hin nýja 3. deild. Í 4. deild yrðu síðan önnur lið, svipað fyirkomulag og er í 3. deildinni nú.

Heppnin spilar minna hlutverk
Fyrsta rökfærslan fyrir því að fjölga deildunum um eina er að sjálfsögðu sú að með nýrri 10 liða þriðju deild þá mundi heildarárangur mótsins gilda en ekki hálfgerð heppnis úrslitakeppni eins og gerist í dag. Gallinn við þetta er að sjálfsögðu aukin ferðakostnaður en líklegt er að lið þyrftu að fara í fleiri ferðir.

Mitt álit á þessu er að sjálfsögðu það að þegar lið skráir sig til keppni í móti þá má reikna með því að þurfa að fara í löng ferðalög eins og gengur og gerist í öðrum löndum. Það þarf metnað til og ef lið vilja bara vera með til að vera með þá er augljóst að stefna þeirra er ekki sett upp um deild. Þetta á ekki að bitna á þeim liðum sem eru að taka þátt af alvöru.

Of mikill munur milli liða í núverandi 3. deild
Styrkleikamunur á liðunum í þriðju deild er næsta röksemdafærsla en margir leikir eru að enda með fimm til tíu marka mun. Ég hef sjálfur spilað með liði þar sem við töpuðum flestum leikjum okkar stórt og liði sem vann marga stóra sigra.

Mér fannst það hundleiðinlegt að grúttapa og ekki skánaði ástandið við það að "sterkustu" leikmenn liðsins ákváðu að fara og spila í utandeildinni í staðinn, vegna þess að töpin voru farin að hafa áhrif á menn. Þar sem ég var einnig í liði sem vann stórt þá var áhuginn heldur ekki jafn mikill. Með því að bæta við deild þá væri verið að brúa bilið á milli deildanna sem er rosalegt.

Með því að fjölga um þessa einu deild mundi liðum í nýrri 4. deild fækka og styrkleikamunurinn yrði þar að leiðandi minni. Menn tala mikið um það að þetta mundi koma niður á liðum útá landi en ég tek það til greina en hinsvegar er það líka möguleiki fyrir önnur félög. Segjum að tillagan gangi í gegn og 2 félög úr norðausturriðli færu í hina nýju 3. deild þá eru aðeins 3-4 lið eftir þar.

Það gæti gefið minni félögum útá landi tækifæri til að hefja keppni þar sem styrkleikamunurinn væri orðinn talsvert minni auk þess sem lið eins og Höttur eða Fjarðarbyggð svo dæmi séu tekin komið inn með "varaliðin" sín eins og er búið að gerast mikið á höfuðborgarsvæðinu að undanförnu. Þar gætu þeir sem eru yngri og með minni reynslu og jafnvel gamla jaxla sem voru hættir myndað frambærilegt lið.

Þess má til gamans geta að a.m.k. þrjú lið utan af landi sem ég talaði við voru algjörlega sammála því að fjölga deildum og tvö þeirra eru á austurlandi og eitt norðurlandi.

Minnka brottfall úr boltanum
Á seinasta ári voru líklega 8-10 lið sem settu stefnuna á að komast upp um deild. Með því að komast upp um deild eykst áhuginn oftar en ekki hjá leikmönnunum og líklega væri auðveldara að fá styrktaraðila bara á því að komast upp um deild.

Lið í efri deildum væru væntanlega líklegri að lána leikmenn í nýja 3. deild sem væri deildarkeppni heldur en þau eru nú. Þá er ekki ólíklegt að einhver af varaliðum efstu- og 1. deildarliðanna mundu komast í hina nýju þriðju deild og ættu að geta byggt upp framtíðarleikmenn í efri deildum með því að lána yngri leikmenn og menn sem eru að koma til baka úr meðslum til félaganna.

Það er mín trú að með því að fjölga deildum muni brottfall leikmanna sem ganga upp úr 2. flokki minnka umtalsvert. Í dag eru of margir sem hætta eftir 2. flokkinn, með því að bæta við einni alvöru deild í viðbót fjölgar möguleikunum fyrir leikmenn sem eru ekki að stefna á hæstu hæðir.

Það er því nauðsynlegt að tillagan fái sem mestan stuðning en til að þess komi þarf 2/3 þingfulltrúa að styðja tillöguna. Ég hvet því alla þá fulltrúa sem mæta á þingið á morgun til að samþykkja tillöguna og segja já við henni. Það er nauðsynlegt fyrir lið sem hafa þurft að sitja eftir ár eftir ár en hafa metnað til að komast hærra. Ekki eru mörg ár síðan sem maður sá stór félög sitja föst í þriðju deildinni þegar kom að úrslitakeppninni.

„Þetta hefur ekki í sér neina fjölgun leikja heldur bara tilfærslur á leikjum milli deilda. Þetta hefur því engin áhrif á dómarafjölda eða neitt slíkt. Það eru engin tæknileg atriði varðandi mótafyrirkomulagið sem hindra þetta. Þetta er bara spurning um hvað félögin vilja,“ sagði Birkir Sveinsson, mótastjóri KSÍ um tillöguna í viðtali við DV.

Hjörvar Hafliðason og Víðir Sigurðsson voru báðir sammála því í viðtali við Fótbolta.net að tillagan væri skref í rétta átt fyrir íslenskan fótbolta þar sem munurinn á bestu og verstu liðunum er mun meiri en í öðrum deildum. Þá sagði Geir Þorsteinsson, formaður KSÍ, í útvarpsviðtali að þessi tillaga komi sér ekki á óvart miðað við breytt landslag í íslenskum fótbolta.

Samkvæmt skoðanakönnun myndu 86% lesenda Fótbolta.net kjósa rétt varðandi þessa tillögu. Rétta svarið er já.

Magnús Valur Böðvarsson
Athugasemdir
banner
banner