,,Þetta var algjör vinnusigur. Við erum mjög ánægðir með þetta og höldum áfram að berjast allt til enda," sagði Pape Mamadou Faye framherji Grindvíkinga ánægður eftir 4-3 sigur liðsins á Stjörnunni í kvöld.
Lestu um leikinn: Stjarnan 3 - 4 Grindavík
Stjörnumenn komust í 2-0 snemma í síðari hálfleik en þá tóku Grindvíkingar heldur betur við sér.
,,Við neitum að gefast upp. Við vitum að það er nóg af leikjum eftir. Mér fannst þeir ekki spila góðan fótbolta í fyrri hálfleik þannig að við áttum allan tímann möguleika."
,,Gaui (Guðjón Þórðarson þjálfari Grindvíkinga) talaði við okkur í hálfleik. Hann sagði okkur að halda coolinu og láta boltann rúlla. Touch, press, move eins og hann kallar það."
Pape fékk að líta gula spjaldið fyrir brot á Kennie Chopart undir lok fyrri hálfleiks. Þetta var fjórða spjald hans í sumar og hann verður því í banni í fallbaráttuslag gegn Selfyssingum eftir rúma viku.
,,Ég á eftir að skoða þetta betur en mér fannst þetta ekki vera gult spjald, þetta var meira svona hné í hné. Þetta er að kosta mig leikinn á móti Selfossi. Ég hef fulla trú á strákunum þeir munu klára þetta og fá þrjú stig."
Hér að ofan má sjá viðtalið í heild sinni.
Athugasemdir





















