Hægri bakvörðurinn Grétar Rafn Steinsson reiknar með að ganga frá samningi við nýtt félag á næstu dögum. Tvö félög eru inni í myndinni hjá Grétari en annað þeirra var að koam inn í spilið í dag.
,,Það var verið að ræða um smáatriði í gær en í morgun þá breyttist þetta allt saman og það kom eitthvað annað inn í þetta. Ég sé til hvað gerist þegar ég kveiki á símanum í fyrramálið, þá sé ég hvert mér er ætlað að fara," sagði Grétar við fjölmiðla eftir leik Íslands og Færeyja í kvöld.
,,Það eru tvö lið sem ég hef mikinn áhuga á að fara til. Það voru nokkur lið sem ég hafði engan áhuga á að fara til. Það var mjög auðvelt að sía nokkur lið út en það voru önnur sem toguðu meira í. Í lokin setti ég hugann á þessi tvö lið og sýndi áhuga á að ganga til liðs við þau ef allt væri á hreinu."
,,Á báðum stöðunum mun ég spila mikið og er í baráttu það sem ég vil vera í baráttu um. Það mun gefa mér tækifæri á að spila áfram fótbolta á hæsta leveli og taka þessa undankeppni með líkamann á fullu gasi. Sólin er hátt á lofti, það er gott."
Grétar Rafn kom inn á sem varamaður í kvöld og lagði upp annað mark Íslands. Þetta var fyrsti leikur hans í nokkra mánuði en Grétar missti af lok síðasta tímabils vegna meiðsla.
,,Þetta er búinn að vera langur aðdragandi og búið að vera virkilega erfitt. Ég er feginn að vera kominn aftur meiðslafrír í toppstandi. Ég er aðeins ryðgaður eins og gefur að skilja þegar þú ert ekki búinn að spila fótbolta í þennan tíma og bara búinn að mæta á tvær fótboltaæfingar," sagði Grétar meðal annars.
Hér að ofan má sjá viðtalið í heild sinni.
Athugasemdir