94% sætanýting tilefni til stækkunar
Nýting sæta á landsleikjum á Laugardalsvelli er sú besta í Evrópu ef mið er tekið af undankeppni HM 2014 og núverandi undankeppni EM. Sætanýtingin er 94% í síðustu átta mótsleikjum á heimavelli og hefur verið uppselt á völlinn á helming leikjanna.
Í úttekt sem Fótbolti.net gerði síðastliðið haust kom í ljós að Ísland var með níundu hæstu sætanýtinguna, eða 83%, tímabilið 2006 - 2013. Því nemur hækkunin á sætanýtingu 11% síðastliðin þrjú ár. Heimsmeistararnir frá Þýskalandi eru í öðru sæti en þó ber að geta þess að þeir dreifa leikjunum milli leikvanga sem eru mismunandi að stærð.
Það er fáheyrt að landslið búi yfir viðlíka stuðningi og íslenska landsliðið um þessar mundir en oftast er meðaltalið milli 50 - 70%. 80% sætanýting þykir mjög góð á þessum vettvangi.
Hver er hvati sætafjölgunar?
Þegar kemur að því að auka við sætafjölda á íþróttaleikvöngum eru margir þættir sem koma til skoðunar. Stærsti þátturinn beinist að sætaþörfinni, þ.e. hversu mörg prósent sætanna eru setin yfir ákveðið tímabil og hversu oft selst upp á leiki.
Sérfræðingar á þessu sviði telja að þegar sætanýting er kominn yfir 90%, sé tími til kominn til að huga að stækkun. Enn frekari ástæða sé til stækkunar þegar sætin eru farin að seljast upp oftar en ekki. Ljóst má telja að uppselt verði á landsleik Íslands og Tékklands í sumar og eru verulegar líkur á því að sama verði upp á teningnum í haust þegar Lettland og Kasakstan sækja Laugardalsvöll heim.
Þeir erlendu sérfræðingar sem Fótbolti.net hefur rætt við segja stöðuna á Íslandi mjög sérstaka. Um sé að ræða fámennt land en þó sé knattspyrnuáhuginn slíkur að réttlætanlegt sé að skoða stækkun á Laugardalsvelli um helming hið minnsta.
Hins vegar vegi það þungt að stórt félagslið á landsvísu geti ekki nýtt sér leikvanginn og aukið þannig tekjurnar. Það þekkist þó erlendis að mestu tekjur knattspyrnuleikvanga tengist landsliðum. Hægt sé t.a.m. að byggja upp hótelstarfsemi kringum völlinn auk annarrar starfsemi.
15.000 manna völlur, það sem koma skal?
Miðað við þá sætanýtingu sem nú er til staðar á Laugardalsvelli auk þeirrar eftirspurnar eftir miðum á landsleiki telja sérfræðingar að yrði 5.000 sætum bætt við völlinn á morgun er líklegt að sætanýtingin muni lækka niður 75 - 85%. Lækkunin gæti þó orðið minni en til þess að meta það til fullnustu yrði að gera ítarlega greiningu á öllum þáttum sem viðkoma væntanlegri stækkun. Ljóst er að Ísland yrði eftir sem áður í efri hlutanum er viðkemur sætanýtingu.
Hins vegar byggist þetta mat á gríðarlegum uppgangi landsliðsins síðustu ár og hið minnsta frávik á árangri landsliðsins getur haft mikil áhrif á áhorfendatölur. Þó skal þess getið að Ísland var á topp 10 yfir sætanýtingu evrópskra landsliða tímabilið 2006 - 2013 en þá var árangur landsliðsins arfaslakur og féll landsliðið t.a.m. í lægstu lægðir á FIFA-listanum á þessu tímabili.
Geir Þorsteinsson, formaður KSÍ, vill stækka Laugardalsvöll og sagði meðal annars síðastliðið haust að framkvæmdir gætu hafist næstkomandi haust að loknum síðasta heimaleik Íslands í undankeppni EM.
Ben Veerbink, stofnandi hollenska fyrirtækisins The Stadium Consultancy, sem sérhæfir sig á þessu sviði sagði þetta við Fótbolti.net um málið.
,,Það er öruggt að það er grundvöllur fyrir stækkun á þessum velli. Það þarf hins vegar að framkvæma nákvæma greiningu til að meta nægjanlegt umfang stækkunar og jafnframt verðteygni og fylgni með nýlegri velgengni landsliðsins."
,,Það þarf auk þess að taka tillit til þess að landsliðið spilar ekki marga leiki á ári og þarf þá að skoða nýtingu á vellinum með tilliti til annarra viðburða."
Þjóðadeildin mun laða fólk að
Sérfræðingar benda þó á að brátt munu vináttulandsleikir fá mun meira vægi en áður með tilkomu Þjóðadeildar UEFA (UEFA Nations League). Þar verður þjóðum Evrópu skipt niður í deildir og innan hverrar deildar munu þjóðirnar berjast um að komast upp um deild. Það mun þýða aukinn áhorfendafjölda á leikjunum. Hins vegar er útilokað að spá fyrir um hversu mikil sú hækkun muni verða.
Sætanýting landsliða síðustu þrjú ár
Ísland 94%
Þýskaland 92,3%
Holland 90,1%
Belgía 88,5%
Portugal 86,9%
Austurríki 86,4%
Úkraína 86,2%
Frakkland 85,9%
Tékkland 85,4%
Spánn 85,2%
Svíþjóð 85,2%
England 84,3%
Pólland 84,1%
Norður-Írland 83,1%
Sviss 82,3%
Andorra 81,3%
Moldavía 81,1%
Írland 75,5%
Eistland 75,4%
Skotland 75,3%
Bosnía 74,9%
Tyrkland 72,3%
Aserbaijan 72,1%
Litháen 71,8%
Rúmenía 71,5%
Ísrael 67,6%
Hvíta-Rússland 66,3%
Ítalía 65,9%
Albanía 65,5%
Slóvenía 65,5%
Finnland 65,4%
Grikkland 65,1%
Lettland 64,8%
Slóvakía 62,7%
Danmörk 61,6%
Georgía 61,3%
Króatía 60,1%
Wales 59%
Lúxemborg 57,9%
Rússland 56,6%
Færeyjar 56,3%
Svartfjallaland 56,3%
Kasakstan 56,2%
Serbía 54,5%
Ungverjaland 54,1%
Armenía 52,3%
Noregur 52,2%
Makedónía 45%
Malta 44,5%
Búlgaría 39,9%
Liecthenstein 39,8%
San Marínó 33,7%
Kýpur 20,3%
Hvað félagslið varðar tróna ensku og þýsku úrvalsdeildirnar á toppinum yfir sætanýtingu en þar er meðaltalið um og yfir 95%.
Sætanýting helstu félagsliða í Evrópu 2014
Arsenal 99%
Bayern Munchen 99%
Manchester United 98%
Dortmund 97%
Liverpool 96%
Manchester City 96%
Schalke 96%
Chelsea 95%
Tottenham 95%
Hamburg 93%
Juventus 90%
Paris St. Germain 88%
Real Madrid 80%
Galatasaray 76%
Barcelona 73%
Atletico Madrid 67%
Fenerbache 66%
AC Milan 51%
AS Roma 50%
Inter Milan 49%
Athugasemdir