Rashford, Fonseca, Moyes, Jorginho, Fati, Lenglet, Amorim, Sterling og Lukaku koma við sögu
   þri 21. febrúar 2006 00:57
Magnús Már Einarsson
Ólafur fær boð um atvinnumannasamning í USA
Mynd: valur.is
Ólafur Þór Gunnarsson varamarkvörður FH fór á reynslu til bandaríska liðsins Atlanta Siverbacks um helgina og hefur hann í kjölfarið fengið samningstilboð frá liðinu.

Þessi fyrrum markvörður Vals, ÍA og ÍR hefur verið í skóla í Bandaríkjunum og spilað þar fótbolta en Atlanta liðið sem hann fékk tilboðið frá er í A-league sem er næsta deild fyrir neðan MLS-deildina í Bandaríkjunum. Annar Íslendingur, Árni Ingi Pjetursson fékk einnig tilboð um að ganga til liðs við Portland Timbers sem er í sömu deild á dögunum en hann hefur ekki ákveðið hvort hann taki því boði.

Ólafur er líkt og Árni Ingi ekki ákveðinn í því hvort hann taki tilboði Atlanta en hann er eins og fyrr segir í námi og aðspurður hvort það komi í veg fyrir samninginn sagði hann við Fótbolti.net: ,,Það er eiginlega vandamálið. Æfingaleikir byrja um miðjan apríl og tímabilið byrjar í lok apríl. Ég vil reyna að klára skólann en það sem gerir þetta líka erfitt er að ef ég get ekki klárað önnina núna og hugsanlega ekki farið í skóla í haust þarf að fresta skólanum ansi lengi til að spila fótbolta í eitt sumar þannig að þetta er eitthvað sem þarf að skoða."

Þessi 28 ára gamli leikmaður ætlar þó ekki að bíða lengi með að taka ákvörðun og ættu hans mál að skýrast á næstu dögum. ,,Það skýrist einhverntímann í vikunni eða í byrjun næstu viku. Það gætu orðið einhverjar breytingar í þjálfaramálum hérna í skólanum sem ég er að þjálfa og annað sem gætu haft áhrif á þetta og svo er ekkert voðalega mikið fótboltalega séð sem er að fá mann til Íslands. Þó að það sé ágætt að vera í Hafnarfirðinum þá er ekkert voðalega gaman að vera aftur þar á bekknum. Maður er kominn á þann aldur að maður væri alveg til í að spila þannig að ef ég kæmi heim væri það ekkert slæmur kostur," sagði Ólafur Þór.

Ákveði hann hinsvegar að taka ekki tilboði Atlanta býst hann við að koma aftur til FH þegar að skólanum lýkur í kringum tíunda maí. ,,Ég hef ekki verið í sambandi við nein önnur lið. Þeir hafa talað við mig og buðu mér að koma aftur og ég hef það svo sem fínt þar, það er ekki vandamálið."
Athugasemdir
banner
banner
banner