Markvörðurinn Ólafur Þór Gunnarsson mun væntanlega vera í láni hjá fyrstudeildarliði Þróttar næsta sumar frá FH en hann hefur náð samningum við félagið. FH-ingar eiga þó eftir að samþykkja lánssamninginn en þeir lánuðu Ólaf Þór til Þróttar síðastliðið sumar.
,,Ég hlakka mikið til sumarsins í Þrótti og þó ég hafi ekki enn heyrt í Gunnari Odds, þá er það allavega mitt markmið að ná einu af efstu 2 sætunum," sagði Ólafur Þór við Fótbolti.net í gær.
Ólafur Þór er 29 ára gamall og hefur leikið með ÍR, ÍA, Val, FH og Þrótti hér á landi. Hann lék í heildina 19 leiki með Þrótti síðastliðið sumar, þar af 14 í 1. deildinni.
Hann lenti í erfiðum meiðslum sumarið 2004 og lék aðeins fimm leiki með Val það ár og einn leik með FH í bikarnum árið eftir en hann er samningsbundinn Íslandsmeisturunum til loka tímabilsins.
Athugasemdir