Rodri, Trippier, Casemiro og Moyes eru meðal þeirra sem koma við sögu
   lau 29. september 2007 00:18
Hafliði Breiðfjörð
Ólafur Þór Gunnarsson: Langar að taka eitt sumar í viðbót
Ólafur Þór Gunnarsson með silfurpeninginn sem Þróttarar fengu fyrir 2. sætið í deildinni.
Ólafur Þór Gunnarsson með silfurpeninginn sem Þróttarar fengu fyrir 2. sætið í deildinni.
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
Ólafur handsamar boltann í leiknum í kvöld.
Ólafur handsamar boltann í leiknum í kvöld.
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
Ólafur Þór Gunnarsson hefur verið frábær í marki Þróttar undanfarin tvö ár en liðið tryggði sér í kvöld sæti í Landsbankadeildinni að nýju eftir 0-4 sigur á Reyni í Sandgerði. Ólafur íhugar að hætta í fótboltanum en viðurkenndi í samtali við Fótbolta.net eftir leik að það væri erfitt nú þegar liðið er komið í Landsbankadeildina.

Þróttur þurfti aðeins tvö stig eftir 18. umferðina til að tryggja sér sæti í Landsbankadeildinni en síðara stigið lét bíða eftir sér og kom ekki fyrr en í kvöld þegar liðið vann Reyni í 22. og síðustu umferðinni.

,,Það er búin að vera löng bið eftir þessu síðasta stigi til að tryggja okkur upp, en það hafðist með glæsibrag í dag. Þetta var aldrei spurning allt frá fyrstu mínútu. En ég hefði viljað klára þetta fyrr og taka deildina, það vantaði þrjú mörk uppá," sagði Ólafur Þór í samtali við Fótbolta.net. ,,En við erum ánægðir að komast upp, engin spurning."

,,Það er ekkert grín að fara suður með sjó og ætla að fara að tryggja sér einhver stig. En við vorum klárlega betra liðið í dag, það var aldrei nein spurning, við ætluðum bara að sína að við ættum ekkert heima í þessari deild lengur."

Á leið sinni að því að hala inn stigin tvö gerði Þróttur jafntefli við Þór þar sem eitt stig kom en tapaði fyrir Fjölni og ÍBV þar til leikurinn gegn Reyni vannst í kvöld.

,,Ég veit ekki afhverju þetta hafðist ekki fyrr," sagði Ólafur Þór. ,,Við komum vel stemmdir til leiks í Grafarvoginum en það fjaraði svolítið út eftir sem á leið enda vorum við manni færri. Svo vorum við bara ekki klárir í ÍBV leikinn og ég held að þeir hafi bara viljað þetta meira heldur en við."

,,En það var engin spurning að við ætluðum ekki að gefa þetta frá okkur, við vorum búnir að hafa allt of mikið fyrir því í sumar að hala inn þessi stig til að fara að klúðra því á lokasprettinum. Við erum bara stoltir af því að klára þetta þó við hefðum viljað vinna deildina líka."


Algjör óvissar er um framtíð Ólafs hjá Þrótti en hann hefur undanfarin tvö ár verið lánsmaður hjá félaginu frá FH og samningur hans við Hafnarfjarðarliðið er að renna út. Hann ætlaði að hætta með liðinu en langar nú til að halda áfram ef það getur gengið upp.

,,Ég var að spá í að hætta ef við myndum klúðra þessu í kvöld en það eru rosalega spennandi tímar framundan hjá Þrótti á næsta ári. Þetta er alveg stórskemmtielgur hópur. Ég verð bara að hugsa minn gang aðeins og sjá hvort ég geti ekki þolað eitt sumar í viðbót."

,,Ég er búsettur erlendis svo við hjónin verðum að ræða málin og ég held að við hljótum að geta fundið einhverja niðurstöðu sem að hentar bæði mér og frúnni."
Athugasemdir
banner
banner
banner
banner