Markvörðurinn Ólafur Þór Gunnarsson er á leiðinni í ÍR en þetta staðfesti Guðlaugur Baldursson þjálfari liðsins við Fótbolta.net í dag.
Þorsteinn V. Einarsson aðalmarkvörður ÍR hefur átt við meiðsli að stríða undanfarnar vikur og Bjarki Þór Steinarsson úr öðrum flokki hefur staðið á milli stanganna í nokkrum leikjum.
,,Við erum með markmenn úr öðrum flokki sem hafa verið að leysa þetta en þeir eru í mörgum verkefnum. Þeir eru að reyna að komast upp úr sinni deild í Íslandsmótinu og síðan eru þeir í bikarkeppninni þannig að við þurfum að fá einn markvörð í viðbót til þess að hjálpa okkur," sagði Guðlaugur við Fótbolta.net í dag.
,,Hann kemur til okkur núna og aðstoðar okkur í þessum vandræðum og síðan sjáum við til með framhaldið."
Ólafur Þór hóf ferilinn hjá ÍR og er því að fara á gamlar heimaslóðir en hann hefur einnig leikið með ÍA, FH, Val og Þrótti hér á landi. Síðast lék hann með Þrótti og hjálpaði liðinu að komast upp í Landsbankadeildina síðastliðið sumar.
Ólafur Þór lagði hanskana á hilluna í mars vegna meiðsl á öxl en nú hefur hann dregið hanskana fram að nýju og er í ágætis formi.
,,Hann hefur komið á æfingu hjá okkur og síðan hefur hann æft eitthvað með Þrótturunum þannig að hann er í ágætu standi," sagði Guðlaugur við Fótbolta.net.
Athugasemdir