lau 01. febrúar 2020 07:20
Ívan Guðjón Baldursson
Milan fær Saelemaekers frá Anderlecht (Staðfest)
Mynd: Getty Images
AC Milan er búið að tryggja sér Alexis Saelemaekers frá Anderlecht. Ungstirnið kemur á lánssamningi út tímabilið með kaupmöguleika, sem ítalska félagið mun vafalaust nýta næsta sumar.

Saelemaekers er 20 ára gamall og hefur verið að hrífa bæði með Anderlecht í belgísku deildinni og með U21 landsliði Belgíu. Hann er fjölhæfur leikmaður sem getur leikið á miðjunni, í hægri vængbakverði og á hægri kanti.

Milan er talið greiða 3,5 milljónir evra fyrir lánið en óljóst er hversu mikið félagið þarf að greiða til að kaupa Belgann næsta sumar.

Saelemaekers er fjórði leikmaðurinn sem gengur í raðir Milan í janúar, eftir komu Zlatan Ibrahimovic á frjálsri sölu og Simon Kjær og Asmir Begovic á lánssamningum.

Anderlecht er þá búið að krækja í Marko Pjaca á lánssamningi frá Ítalíumeisturum Juventus.
Athugasemdir
banner
banner
banner