„Það var alveg margt jákvætt. Mér fannst bæði lið sýna mjög gott hjarta og svona, en það voru ekki mikil gæði fótboltalega séð," sagði Arnar Gunnlaugsson, þjálfari Víkings, eftir tap gegn KR í vítaspyrnukeppni í úrslitaleik Reykjavíkurmótsins í kvöld.
Lestu um leikinn: Víkingur R. 5 - 6 KR
„Þetta var svolítill borðtennis leikur og það er leikur sem hentar þeim betur en okkur. Þetta var seinni bolta leikur og mikil læti. Mikið hjarta en lítil gæði."
Skipta úrslitin í þessari keppni miklu máli?
„Auðvitað viltu alltaf vinna. En ef sumarið endar eins og það gerði í fyrra, þá er ég alveg sáttur. Þú vilt auðvitað vinna alla leiki. Það er svolítið einstakt að vera handhafi allra titla og við klúðruðum því í kvöld."
Það var mikill hiti í leiknum. „Það var hjarta og mikil læti. Mér fannst ég vera kominn 20 ár aftur í tímann þegar ég var að spila. Það var mikil einstaklingsbarátta, kýlingar og seinni boltar. Það voru brot, og sum brot alvarlegri en önnur. Svona er þetta bara. Þetta var leikur sem hentaði okkur ekki."
Alex Þór Hauksson var í hópnum hjá KR þrátt fyrir að vera ekki skráður með leikheimild. Valdimar Þór Ingimundarson var ekki í hópnum hjá Víkingi. Hvað fannst Arnari um það?
„Valdimar má ekki spila, hann er bara ólöglegur. Og Pálmi (Rafn Arinbjörnsson) líka. Ég veit ekki hvernig staðan er með Alex. Það getur vel verið að hann sé löglegur. Ef hann er ólöglegur þá get ég lofað þér því - á meðan ég er við stjórnvölinn hjá Víkingi - að þá verður ekki kært eða gerður nokkur skapaður hlutur. KR er Reykjavíkurmeistari og það er bara þannig."
Hægt er að sjá allt viðtalið í spilaranum hér fyrir ofan.
Athugasemdir