Malen, Maguire, Rashford, Greenwood, Yoro, Eriksen og fleiri góðir í slúðri dagsins
   fös 01. júlí 2022 21:41
Brynjar Ingi Erluson
Lengjudeildin: Toppliðin töpuðu stigum - Aron Elí svellkaldur á ögurstundu
Aron Elí jafnaði metin úr vítaspyrnu í uppbótartíma
Aron Elí jafnaði metin úr vítaspyrnu í uppbótartíma
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
Gonzalo Zamorano skoraði fyrir Selfoss
Gonzalo Zamorano skoraði fyrir Selfoss
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
Kórdrengir unnu Gróttu
Kórdrengir unnu Gróttu
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
Toppliðin tvö, Grótta og Selfoss, töpuðu stigum í Lengjudeild karla í kvöld en Grótta tapaði fyrir Kórdrengjum, 1-0, á meðan Selfoss gerði 2-2 jafntefli við Grindavík.

Það tók Valdimar Jóhannsson aðeins átján mínútur að koma toppliði Selfyssinga yfir. Gestirnir keyrðu í hraða sókn og endaði boltinn hjá Gary Martin, sem lagði hann fyrir Valdimar. Hann keyrði framhjá Aroni í markinu og lagði boltann í netið.

Símon Logi Thasaphong jafnaði fyrir Grindavík á 52. mínútu eftir sendingu frá Kairo Edwards-John. Selfyssingar voru ekki lengi að svara og var það Gonzalo Zamorano sem kom þeim aftur yfir þremur mínútum síðar.

Hann fór illa með Marinó Axel Helgason vinstra megin, keyrði í átt að marki og lét vaða, en boltinn fór af varnarmanni og yfir Aron í markinu.

Dagur Ingi Hammer Gunnarsson jafnaði fyrir Grindvíkinga þegar tæpar tuttugu mínútur voru eftir. Aron Jóhannsson átti fyrirgjöf sem Dagur stangaði í netið.

Grindvíkingar voru líklegir til að bæta við þriðja markinu næstu mínúturnar og þá fengu Selfyssingar nokkur góð færi undir lokin en lokatölur 2-2. Selfoss er á toppnum með 18 stig en Grindavík með 14 stig í 5. sæti.

Góður sigur Kórdrengja

Kórdrengir lögðu Gróttu að velli, 1-0, á Framvellinum. Óskar Atli Magnússon gerði eina markið á 7. mínútu en skot hans fór af varnarmanni og í netið.

Iosu Villar var nálægt því að bæta við öðru á 55. mínútu en langskot hans var varið af Jóni Ívan Riviene.

Kórdrengir fengu töluvert betri færi í leiknum og gátu nokkrum sinnum gert út um leikinn en þeim brást bogalistin. Það kom þó ekki að sök og 1-0 sigur staðreynd. Liðið er með 13 stig í 7. sæti en Grótta í öðru sæti með 16 stig.

Mögnuð endurkoma Aftureldingar

Fylkir og Afturelding gerðu 2-2 jafntefli á Würth-vellinum í Árbæ en Fylkismenn náðu góðri forystu snemma leiks.

Fyrsta markið kom eftir mistök Esteve Pena í markinu Aftureldingar en hann ætlaði að senda boltann á Gunnar Bergmann SIgmarsson en danski framherjinn Mathias Laursen las það og pressaði boltann áður en hann skoraði.

Gestirnir gátu jafnað strax í kjölfarið. Elmar Kári Enesson Cogic var fyrst kominn einn á móti markverði en Ólafur Kristófer Helgason varði áður en Aron Elí Sævarsson mætti í frákastið og þrumaði boltanum viðstöðulaust í slá.

Þetta reyndist dýrkeypt því þremur mínútum síðar skoraði Orri Sveinn Stefánsson annað mark Fylkis með skalla eftir hornspyrnu Arnórs Breka Ásþórssonar.

Afturelding kom með kraft inn í síðari hálfleikinn og bætti Elmar Kári upp fyrir færið í byrjun fyrri hálfleiks. Hann minnkaði muninn á 51. mínútu.

Benedikt Daríus Garðarsson gat komið Fylkismönnum í 3-1 í kjölfarið er hann komst einn á móti Esteve, en Spánverjinn varði frá honum.

Það var svo í uppbótartíma er dómarinn dæmdi vítaspyrnu eftir að Ásgeir Eyþórsson braut klaufalega af sér. Fyrirliðinn Aron Elí steig á punktinn, ískaldur og skoraði. Lokatölur 2-2. Afturelding er með 10 stig í 9. sæti en Fylkir í 3. sæti með 15 stig.

Úrslit og markaskorarar:

Fylkir 2 - 2 Afturelding
1-0 Mathias Laursen Christensen ('14 )
2-0 Orri Sveinn Stefánsson ('21 )
2-1 Elmar Kári Enesson Cogic ('50 )
2-2 Aron Elí Sævarsson ('93 , víti)
Lestu um leikinn

Grindavík 2 - 2 Selfoss
0-1 Valdimar Jóhannsson ('18 )
1-1 Símon Logi Thasaphong ('52 )
1-2 Gonzalo Zamorano Leon ('55 )
2-2 Dagur Ingi Hammer Gunnarsson ('72 )
Rautt spjald: Dean Edward Martin , Selfoss ('93) Lestu um leikinn

Kórdrengir 1 - 0 Grótta
1-0 Óskar Atli Magnússon ('7 )
Lestu um leikinn
Athugasemdir
banner
banner
banner
banner
banner