mán 01. ágúst 2022 22:52
Ívan Guðjón Baldursson
Kluivert vill fara til Nice en Fulham býður betur
Mynd: Getty Images
Mynd: EPA

Ítalskir fjölmiðlar segja að Nice og Fulham séu einu liðin sem eru eftir í baráttunni um Justin Kluivert, hollenskan kantmann AS Roma sem getur einnig leikið í holunni.


Kluivert sjálfur vill frekar fara til Frakklands þar sem hann varði síðustu leiktíð að láni hjá Nice og kom að 12 mörkum í 31 leik.

Kluivert er 23 ára gamall og hefur aðeins komið að 19 mörkum í 68 leikjum hjá Roma, 9 mörk og 10 stoðsendingar.

Þrátt fyrir vilja Kluivert þá eru nýliðarnir í ensku úrvalsdeildinni að bjóða betur í leikmanninn, sem var meðal annars orðaður við West Ham í júlí.

Það er mögulegt að Kluivert hafni því að ganga í raðir Fulham til að Roma neyðist til að selja hann til Nice. Það er mikil uppbygging í gangi hjá Nice og endaði félagið í fimmta sæti frönsku deildarinnar í vor.

Kluivert á eitt ár eftir af samningi sínum við Roma og hefur ekki tekist að hrífa Jose Mourinho frá því að Portúgalinn tók við.

Justin er sonur Patrick Kluivert sem lék meðal annars fyrir Ajax, Milan og Barcelona á ferlinum.

Feðgarnir ólust báðir upp hjá Ajax og á sonurinn tvo landsleiki að baki fyrir Holland. Faðirinn skoraði 40 mörk í 79 landsleikjum með Hollandi.


Athugasemdir
banner
banner