Zidane hefur augastað á Man Utd - Guimaraes áfram hjá Newcastle - Bayern hefur ekki rætt við Rangnick
   lau 02. mars 2024 21:02
Brynjar Ingi Erluson
Valgeir úr leik í bikarnum - Hákon byrjaði í sigri
Valgeir Lunddal snéri aftur á völlinn
Valgeir Lunddal snéri aftur á völlinn
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
Hákon Arnar byrjaði annan deildarleikinn í röð
Hákon Arnar byrjaði annan deildarleikinn í röð
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
Valgeir Lunddal Friðriksson og hans menn í Häcken eru úr leik í sænska bikarnum eftir að liðið gerði 1-1 jafntefli við Brommapojkarna í dag.

Häcken vann aðeins einn af þremur leikjum sínum í riðlakeppni bikarsins, en efsta liðið fer áfram í 8-liða úrslit.

Valgeir og félagar hefðu því þurft að vinna í dag til að komast áfram á meðan jafntefli dugði Brommapojkarna.

Íslendingurinn hefur glímt við erfið meiðsli síðustu mánuði en snéri aftur á völlinn í dag.

Sveinn Aron Guðjohnsen var í byrjunarliði Hansa Rostock sem tapaði fyrir Kaiserslautern, 3-0, í þýsku B-deildinni. Sveinn fór af velli í hálfleik. Hansa Rostock er í næst neðsta sæti með 22 stig.

Jón Daði Böðvarsson kom inn af bekknum í 2-0 sigri Bolton Wanderers á Cambridge United í ensku C-deildinni. Hann spilaði síðustu tíu mínútur leiksins, en þessi sigur kemur liðinu upp að hlið Derby, sem er í öðru sæti deildarinnar.

Hákon Arnar Haraldsson var í byrjunarliði Lille annan leikinn í röð er liðið vann 1-0 sigur á Reims í frönsku deildinni. Lille er í 4. sæti með 41 stig.

Jón Dagur Þorsteinsson byrjaði hjá Leuven sem tapaði fyrir toppliði Royale Union SG, 2-0, í belgísku úrvalsdeildinni. Leuven er í 13. sæti með 26 stig, en liðið er án sigurs í síðustu fjórum leikjum sínum.

Willum Þór Willumsson var eins og venjulega í byrjunarliði Go Ahead Eagles sem lagði Waalwijk að velli, 1-0, í hollensku úrvalsdeildinni. Eagles eru í 5. sæti með 37 stig og stefna á að komast í Evrópu fyrir næstu leiktíð.

Bróðir hans, Brynjólfur, skoraði þá úr vítaspyrnu í 3-0 sigri Kristiansund á Tromsö í æfingaleik í dag. Hilmir Rafn Mikaelsson spilaði einnig fyrir Kristiansund í leiknum.

Óttar Magnús Karlsson lék allan leikinn er Vis Pesaro tapaði fyrir Pontedera, 1-0, í ítölsku C-deildinni. Óttar hefur farið mikinn með Vis Pesaro á tímabilinu, en hann er á láni frá Venezia. Vis Pesaro er í 13. sæti B-riðils með 32 stig.
Athugasemdir
banner
banner
banner