
„Þetta leggst bara ótrúlega vel í okkur. Annað skiptið í röð og nú ætlum við okkur alla leið,'' sagði Hallgrímur Jónasson, þjálfari KA, þegar hann var spurður hvernig það færi í mannskapinn að vera á leið í bikarúrslit annað árið í röð eftir 3-2 sigur á Val í undanúrslitum Mjólkurbikarsins.
Lestu um leikinn: KA 3 - 2 Valur
Undanúrslitaleikir KA við Breiðablik og núna Val hafa ekki verið fyrir hjartveika. Fara í vítaspyrnukeppni í fyrra gegn Blikum og héldu svo sínu fólki aldeilis á tánum í kvöld með því að fara með nokkur færi til þess að gera út um leikinn og halda hjartslættinum í hámarki með því.
„Já það er rétt, það var hörkuleikur í fyrra og í dag spilum við bara ótrúlega vel. Leikurinn þróast vel fyrir okkur, við komumst yfir og þeir fara hátt með liðið og það skapast svæði. Svona eftir á, þá hefðum við getað skorað svona sjö mörk! Við fáum einn á móti markmanni nokkrum sinnum, en það skiptir svosem engu máli núna.''
Hallgrímur setti spurningarmerki við jöfnunarmark Vals, en var jafnframt mjög ánægður með svar KA manni við því áfalli.
„Smá högg að fá á okkur fyrsta markið, af því að við erum einum færri og okkar maður er fyrir utan völlinn. En við sýnum karakter og höldum áfram. Mér fannst bara meira hjarta í mínu liði. Valsliðið er gríðalega gott og ég held að það sem hafi skilað sigrinum í dag að við vildum þetta meira en þeir.''
Hallgrímur stillti upp í 3-5-2 kerfi og Jakob Snær Árnason og Kári Gautason spiluðu sín hlutverk sem vængbakverðir frábærlega í kvöld.
„Ég vildi fá aggresíva og fljóta vængbakverði á móti þeirra könturum. Þeir eru með frábær gæði fram á við, þeirra kantarar. Svo að ég vissi að ef að við myndum vinna boltann þá væru svæði til að fara á þá og við nýttum okkur það vel. Skorum þrjú góð mörk og hefðum getað skorað meira.''
Stemningin var frábær í stúkunni og Hallgrímur var gríðarlega spenntur að fá að upplifa bikarúrslitastemningu aftur með stuðningsfólki KA.
„Stemningin var með okkur. Áhorfendur í dag voru frábærir og við hlökkum ekkert eðlilega til að fara með þá annað árið í röð á Laugardalsvöll. Æðislegur dagur og unnum mjög sterkt Valslið,'' sagði glaður Hallgrímur Jónasson.
Viðtalið má sjá í heild sinni í spilaranum hér að ofan.