banner
   fös 02. september 2022 08:45
Ívan Guðjón Baldursson
Lille fær Andre Gomes frá Everton (Staðfest)
Mynd: Getty Images
Mynd: Heimasíða Newcastle

Lille styrkti sig með tveimur leikmönnum á lokadegi sumargluggans. Andre Gomes er kominn á lánssamningi út tímabilið en hann á aðeins tvö ár eftir af samningi sínum við Everton.


Portúgalski miðjumaðurinn byrjaði vel hjá Everton þegar hann kom á lánssamningi frá Barcelona og ákvað félagið að festa kaup á honum fyrir um 22 milljónir punda.

Gomes, 29 ára, meiddist illa á ökkla í nóvember 2019 og náði sér aldrei aftur á strik í enska boltanum. Hann á í heildina 100 leiki að baki á fjórum árum hjá Everton og 29 leiki fyrir portúgalska landsliðið, þeir síðustu voru 2018.

Lille missti Amadou Onana, Sven Botman og Renato Sanches í sumar auk Zeki Celik og Domagoj Bradaric. Félagið tryggði sér Adam Ounas, kantmann Napoli, fyrir 2,5 milljónir evra og 50% af endursölu leikmannsins.

Ounas er 25 ára og hefur skorað 7 mörk í 62 leikjum með Napoli. Hann á 5 mörk í 19 landsleikjum með Alsír.

Fyrr í sumar krækti Lille einnig í Mohamed Bayo fyrir 14 milljónir evra. Bayo er 24 ára og skoraði 14 mörk á sínu fyrsta tímabili í Ligue 1 og átti stóran þátt í að bjarga nýliðum Clermont frá falli beint aftur niður. Hann raðaði inn mörkunum í Ligue 2 í fyrra og á 3 mörk í 11 landsleikjum fyrir Gíneu.

Þá eru Alan Virginius, Remy Cabella og Jonas Martin einnig komnir til félagsins. Cabella er fyrrum leikmaður Newcastle. Auk þeirra eru varnarmennirnir Akim Zedadka, Ismaily, Alexsandro Ribeiro og Bafode Diakite einnig gengnir til liðs við Lille.


Athugasemdir
banner
banner
banner