Liverpool hefur áhuga á Gomes - Yamal fær nýjan samning - Sean Dyche íhugar markvarðarbreytingu
   mán 02. september 2024 21:58
Brynjar Ingi Erluson
Osimhen á leið til Galatasaray - „Here we go!“
Victor Osimhen
Victor Osimhen
Mynd: Getty Images
Mynd: Getty Images
Nígerískí sóknarmaðurinn Victor Osimhen er á leið til tyrkneska félagsins Galatasaray á láni frá Napoli en þetta fullyrðir Fabrizio Romano með frasanum fræga „Here we go!“ í kvöld.

Galatasaray náði samkomulagi við Napoli í kvöld um að fá Osimhen á láni út tímabilið. Ekkert kaupákvæði er í samningnum sem gildir út leiktíðina.

Osimhen, sem er 25 ára gamall, var einn eftirsóttasti framherji sumarsins, en Chelsea og Paris Saint-Germain voru í harðri baráttu um hann og þá skoðaði Liverpool einnig að fá hann.

PSG dró sig úr baráttunni þar sem félagið náði ekki samkomulagi við Napoli um kaupverð á meðan Chelsea hætti við þar sem Osimhen var ekki reiðubúinn að taka á sig launalækkun.

Al Ahli frá Sádi-Arabíu var einnig líklegur áfangastaður, en félagið ákvað á endanum að sækja Ivan Toney frá Brentfor þar sem Osimhen tók sér of langan tíma að gera upp hug sinn.

Ef Osimhen hefði kosið það að vera áfram hjá Napoli hefði hann ekki spilað á tímabilinu. Það var sameiginleg ákvörðun Antonio Conte, þjálfara Napoli, og stjórnarinnar, en Osimhen hafði tjáð félaginu í byrjun sumars að hann vildi fara.

Sóknarmaðurinn sá því ekkert annað í stöðunni en að finna tímabundna lausn og er hann nú á leið til Galatasaray á láni út tímabilið.

Osimhen mun ferðast til Istanbúl í kvöld og gangast undir læknisskoðun.

Samkvæmt Romano er Osimhen með 75 milljóna evra riftunarákvæði í samningi sínum og á Napoli þá möguleika á að framlengja samning hans til 2027.
Athugasemdir
banner
banner
banner
banner
banner