banner
   mið 02. nóvember 2022 11:00
Guðmundur Aðalsteinn Ásgeirsson
Adam Árni fundað með nokkrum félögum - Vestri boðið honum samning
Adam Árni fagnar marki með Keflavík.
Adam Árni fagnar marki með Keflavík.
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
Það hefur verið nokkuð rætt um það á síðustu dögum að lið Keflavíkur gæti verið mikið breytt fyrir næstu leiktíð.

Keflavík kom flestöllum á óvart með því að enda í sjöunda sæti Bestu deildarinnar í sumar. Sigurður Ragnar Eyjólfsson var einn af þjálfurum ársins en fyrir tímabil var því spáð að Keflavík færi niður í Lengjudeildina.

En núna eru margir stórir póstar hjá Keflavík að verða samningslausir og óvíst með framtíð þeirra. Margir leikmenn eru að skoða í kringum sig.

Einn af þessum leikmönnum er Adam Árni Róbertsson, framherji sem skoraði fimm mörk í 21 leik í sumar. Hann var mikið í því að koma inn af bekknum og spilaði í heildina rúmlega 800 mínútur.

Keflavík vill halda honum, en samkvæmt heimildum Fótbolta.net er mikill áhugi á leikmanninum. Vestri, sem leikur í Lengjudeildinni, hefur boðið honum samning og vonast til að hann taki slaginn með þeim á næstu leiktíð.

Þá hafa bæði Grindavík og Njarðvík fundað með honum. Haukar í 2. deild hafa líka sýnt honum áhuga.

Það verður fróðlegt að sjá hvar þessi 23 ára gamli framherji endar og jafnframt verður athyglisvert að sjá hvernig lið Keflavíkur mun líta út á næstu leiktíð - hversu miklar breytingar verða á því?
Athugasemdir
banner
banner