Hver tekur við af Klopp? - Dani Olmo orðaður við Man Utd - Greenwood í skiptum fyrir Gleison Bremer
banner
   mið 02. nóvember 2022 20:05
Sæbjörn Þór Þórbergsson Steinke
„Verið draumur alveg síðan ég fór út 15 ára gamall"
Lengjudeildin
Mættur í gult.
Mættur í gult.
Mynd: ÍA
Arnór í landsliðstreyjunni.
Arnór í landsliðstreyjunni.
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
Jóna og Haukur Andri.
Jóna og Haukur Andri.
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
Verið draumur í átján ár að spila í gulu treyjunni á Akranesvelli.
Verið draumur í átján ár að spila í gulu treyjunni á Akranesvelli.
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
Arnór Smárason var í gær tilkynntur sem nýr leikmaður ÍA. Arnór er uppalinn Skagamaður en náði ekki að spila með ÍA áður en hann fór út í atvinnumennsku erlendis. Arnór lék erlendis með Heerenveen, Esbjerg, Helsingborg, Torpedo Moskvu, Hammarby og Lilleström áður en hann gekk í raðir Vals fyrir tímabilið 2021.

Arnór er 34 ára og var hluti af U21 landsliðinu sem fór á lokamót EM árið 2011. Á ferlinum lék hann 26 landsleiki, skoraði þrjú landsliðsmörk og varð bæði hollenskur og danskur bikarmeistari.

Fótbolti.net ræddi við Arnór í gær og spurði hann út í skiptin í ÍA.

„Þetta er bara tileinkað brósa, afmælisgjöf," sagði Arnór léttur en bróðir hans, Sverir Mar, fagnaði 27 ára afmælisdegi sínum í gær.

„Þetta er búið að vera klárt í svolítinn tíma en ég vildi bara klára tímabilið með Val, koma með þetta eftir tímabilið. Öllum fannst réttast að gera þetta þannig. Brósi er himinlifandi með þessa afmælisgjöf, gaman að geta glatt hann á degi sem þessum."

Draumurinn varð stærri með hverju árinu sem leið
Var það búið að vera klárt í langan tíma að ef Arnór færi frá Val að áfangastaðurinn yrði ÍA?

„Stefnan hefur alltaf verið að fara heim upp á Skaga og spila, alveg síðan ég fór út 15 ára gamall í janúar 2004. Því lengur sem maður var úti því stærri varð draumurinn um að enda þetta upp á Skaga. Ég er þvílíkt glaður með þetta."

„Ég ákvað að fara í Val fyrir tveimur árum, var þá á aðeins öðruvísi stað. Kom til Íslands eftir að hafa verið meiddur í eitt ár og vissi að það myndi taka tíma að koma sér í gang aftur og vissi að það gæti komið bakslag sem svo gerðist í fyrra. Ég náði mér aldrei á strik fyrr en rétt undir lok tímabilsins. Í kjölfarið náði ég góðum vetri og er búinn að vera heill allt tímabilið. Skrokkurinn er í góðu standi, hungrið ennþá til staðar og tímapunkturinn flottur að koma heim upp á Skaga núna - þó að liðið sé nýfallið."

„Það eru áskoranir og möguleikar sem ég sé í því. Af minni hálfu skipti það aldrei neinu máli hvort ÍA myndi halda sætinu eða ekki. Þegar ég gekk frá því að ég færi í ÍA þá vissi ég ekki hvort ÍA yrði í efstu deild eða næstefstu. Við fjölskyldan tókum bara ákvörðun að fara upp á Skaga."

„Ég ætlaði að koma í sumarglugganum, ÍA vildi mikið fá mig í sumarglugganum og ég var alveg tilbúinn til að fara upp á Skaga þá en á þeim tímapunkti var Valur nýbúið að skipta um þjálfara og Valsarar vildu ekki láta mig fara. Skiptin eru þannig séð búin að vera í bígerð frá því í sumar."


Hversu mikið hlakkar Arnór til að spila í gulu treyjunni á Akranesvelli?

„Ótrúlega mikið, labba út á völl í gulu treyjunni og spila fyrir mitt lið, mína fjölskyldu og minn bæ. Það hefur alltaf verið draumur sem er loksins að vera að veruleika. Ég er þvílíkt peppaður fyrir þessu verkefni og á sama tíma auðmjúkur fyrir því."

„Ég veit að það verða ákveðnar væntingar til mín sem ég fíla að takast á við. Ég ætla að mæta með mína reynslu, mitt hugarfar og minn professionalisma - reyna að smita það eins mikið út frá mér og ég get í liðið og hópinn. Ég er þvílíkt peppaður fyrir þessu verkefni."

„Ég fékk aðeins smjörþefinn þegar ég spilaði í fyrsta skiptið á Akranesvelli í sumar. Það voru blendnar tilfinningar að skora sigurmarkið í þeim leik. Það er gaman að skora á þessum velli og vonandi verða mörkin fleiri."


„Klúbburinn þarf að vinna sér inn fyrir því"
Leyfiru þér að hugsa á þessum tímapunkti að það yrðu vonbrigði að ná ekki að fara upp með ÍA á næsta ári?

„Það er erfitt að segja á þessum tímapunkti. Jón Þór og klúbburinn eru þannig séð að smíða nýtt lið og það er þannig séð á byrjunarreit. Ég sá fréttir að það væru margir leikmenn á förum. Ég ætla ekki að koma með neinar yfirlýsingar núna, menn þurfa bara að setjast niður og ég veit að Jón Þór er með flott plön. Jón Þór þarf að fá tíma til að koma sínum plönum í verk."

„Allir á Akranesi og allir stuðningsmenn félagsins vilja náttúrulega að ÍA sé í efstu deild. Klúbburinn þarf að vinna sér inn fyrir því að vera Bestu deildar klúbbur og ég ætla koma og hjálpa til við það."


Náskyldur þjálfaranum og nágranni eins efnilegasta leikmannsins
Jón Þór Hauksson og Arnór eru systkinabörn og er Arnór spenntur að vinna með Jóni Þór.

„Hann er öflugur þjálfari og öflug manneskja. Hann gerir kröfur til sín og liðsins sem hann er að þjálfa. Ég er mjög spenntur að fara inn í þessa uppbyggingu og vegferð með honum. Það hjálpar alveg til að hann sé að þjálfa liðið."

Ertu náskyldur einhverjum í liðinu?

„Nei, enginn náskyldur. Ég bjó við hliðina á Hadda og Jónu og man eftir Tryggva, Hákoni og Hauki Andra. Man eftir Hauki Andra sem litlum patta."

„Hann er gríðarlegt efni, verður gaman að vinna með honum og ég get vonandi hjálpað honum að taka næstu skref á sínum ferli. Hann er spennandi leikmaður sem kom virkilega sterkur inn í sumar,"
sagði Arnór.

Þetta var fyrri hluti viðtalsins og í seinni hlutanum fer hann yfir tíma sinn hjá Val.

Athugasemdir
banner
banner
banner
banner
banner