Kolbeinn Þórðarson skoraði mark Gautaborgar í 1-1 jafntefli gegn Kalmar í sænsku deildinni í dag.
Hann kom liðinu yfir í uppbótatíma í fyrri hálfleik en Kalmar jafnaði metin undir lok leiksins. Þetta var síðasti heimaleikur Gautaborgar á tímabilinu en síðasti leikur liðsins er gegn Mjallby.
Liðið er fjórum stigum frá fallumspili en liðin fyrir neðan eiga öll leik til góða.
Daníel Leó Grétarsson var í byrjunarliði Sonderjyske sem tapaði 4-1 á heimavelli gegn Randers í dönsku deildinni. Kristall Máni Ingason er á meiðslalistanum hjá Sonderjyske. Liðið er í 10. sæti með 11 stig eftir fjórtán umfereðir.
Stefán Ingi Sigurðarson kom inn á sem varamaður og tókst ekki að setja mark sitt á leikinn þegar Sandefjord tapaði 3-2 gegn Viking í norsku deildinni. Sandefjord er í 13. sæti með 28 stig eftir 27 umferðir.
Elías Már Ómarsson var í byrjunarliði NAC Breda sem tapaði 2-0 gegn Heracles í hollensku deildinni. Ajax vann PSV 3-2 en Kristian Nökkvi Hlynsson er meiddur. Ajax minnkaði forskot PSV á toppnum niður í 5 stig og Ajax á leik til góða. NAC Breda er í 7. sæti með 15 stig eftir 11 umferðir.