Kylian Mbappe hefur átt erfitt uppdráttar hjá Real Madrid síðan hann gekk til liðs við félagið frá PSG í sumar.
Það var búist við miklu af honum en hann skoraði áttunda mark sitt í 13. leiknum í sigri á Getafe um helgina. Thibaut Courtois, markvörður liðsins, talaði við fjölmiðla eftir leikinn og ræddi um vandræði Mbappe.
„Þetta er svipað og ég lenti í þegar égkom. Það er ekki auðvelt að takast á við kröfurnar sem eru gerðar hjá Real Madrid. Þú veist hvert þú ert að fara og hvað bíður þín en það er aldrei auðvelt," sagði Courtois.
Hann er sannfærður um að Mbappe fari að raða inn mörkunum.
„Hann er frábær leikmaður, ég hef oft mætt honum og þekki hans styrkleika. Hann leggur hart að sér og hefur mikinn viljastyrk. Hann skoraði eflaust úr erfiðasta færinu í dag. Hann náði ekki að nýta önnur færi en það er bara smá óheppni."
„Hann mun skora mörk, þetta er svolítið eins og tómatsósuáhrifin. Þú getur barið flöskuna eins og þú vilt, það kemur bara smá en svo skyndilega kemur allt. Það verður eins með hann. Það mun skyndilega allt ganga upp og hann skorar helling af mörkum eins og í París, Mónakó og franska landsliðinu," sagði Courtois.