Kári Árnason leikmaður sænsku meistaranna í Djurgården er að verða klár í slaginn á ný eftir meiðsli á læri og hefur hafið æfingar með liðinu á ný. Hann meiddist í æfingaferð liðsins í Portúgal í lok mars en það var fyrrum liðsfélagi hans í Víkingum sem tæklaði hann svo hann meiddist.
„Jón „Bóndi" Guðbrandsson gerði það, ég var smá pirraður fyrst og böggaði hann aðeins en þetta var bara óheppni," sagði Kári Árnason í samtali við Fótbolta.net. „Svo meiddist ég aftur í leik hérna úti, aftan í lærinu og hef verið frá útaf því," bætti hann við.
Djurgården hefur ekki gengið sem skildi í upphafi leiktíðarinnar í Svíþjóð og er í fjórða sæti deildarinnar með þrjá sigra úr sex leikjum. Kári býst hinsvegar við að þeir nái sér á strik á ný.
„Þetta hefur gengið heldur brösulega núna og við höfum átt erfiða leiki líka. En við finnum vonandi okkar rétta form fljótlega, og við gerum það alveg, það er engin spurning. Menn þurfa bara að leggja aðeins harðar af sér inni á vellinum. Það er ekki það að það sé ekki æft stíft og svona."
„Það eru orðnar smá prímadonnur hérna stundum. Það er kannski ekkert skrítið því menn eru svo mikið í blaðaviðtölum og fá mikla athygli og alltaf verið að tala um þá."
Sænska deildin fer í frí á meðan Heimsmeistaramótið stendur yfir en Svíar eru meðal þáttökuliða þar. Eftir fríið ætlar Kári að komast á fullt flug í deildinni.
„Ég hef verið óheppinn með meiðsli og hef ekki náð að spila nokkuð að ráði því ég hef alltaf verið að glíma við einhver smá meiðsli. En ég hef styrkt mig vel í vetur og verð sterkari á þessari leiktíð en í fyrra þó ég verði að bíða aðeins með það, þá verður það kannski ekkert fyrr en eftir HM."
„Maður getur ekkert ætlast til þess að fara beint í liðið eftir að hafa verið meiddur lengi. Ég vona að ég komist í liðið strax en ef ég á að vera raunsær þá er ekki gengið að sætinu."
„Við fáum tíu daga frí 19. maí og þá fer ég til Íslands. Svo er bara æft stíft og farið í æfingabúðir. Það er að minnsta kosti einn leikmaður hjá okkur sem fer á HM og það gætu verið þrír aðrir en það fer bara eftir hvernig þeir standa sig á næstunni."
Athugasemdir