Chelsea gæti gert tilboð í Garnacho - Man City vill Cambiaso - Dortmund dregur sig úr baráttunni um Rashford
   mið 03. maí 2023 15:30
Guðmundur Aðalsteinn Ásgeirsson
Viðtal
Úr 1. deild á stærsta sviðið - „Draumur frá því ég byrjaði í fótbolta"
Sveindís Jane Jónsdóttir.
Sveindís Jane Jónsdóttir.
Mynd: Getty Images
Í leiknum á Emirates-vellinum.
Í leiknum á Emirates-vellinum.
Mynd: Getty Images
Fagnar marki með Wolfsburg.
Fagnar marki með Wolfsburg.
Mynd: EPA
Sveindís er þriðji Íslendingurinn sem fer í úrslitaleik Meistaradeildarinnar.
Sveindís er þriðji Íslendingurinn sem fer í úrslitaleik Meistaradeildarinnar.
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
Barcelona er með frábært lið.
Barcelona er með frábært lið.
Mynd: EPA
Í leik með Keflavík í 1. deildinni árið 2018.
Í leik með Keflavík í 1. deildinni árið 2018.
Mynd: Auður Erla Guðmundsdóttir
Sveindís Jane Jónsdóttir varð á mánudagskvöld þriðji Íslendingurinn til að komast í úrslitaleik Meistaradeildarinnar. Hún var í byrjunarliði þýska félagsins Wolfsburg sem vann 2-3 sigur á Arsenal í framlengdum leik.

Það var uppselt á leikinn sem fór fram á Emirates-leikvanginum í London. Um 60 þúsund manns mættu til að sjá leikinn.

„Það var klikkað, þetta hefur verið draumur frá því ég byrjaði í fótbolta. Ég hef horft á karlalið Arsenal spila á Emirates frá því ég man eftir mér og það var geggjað að fá að upplifa þetta. Það var geggjað að enda leikinn líka á sigri," segir Sveindís í samtali við Fótbolta.net.

Fyrir tíu árum síðan þegar þessi sömu lið mættust í undanúrslitum Meistaradeildarinnar þá mættu rúmlega 1400 manns til að sjá leikinn en á mánudaginn voru 60 þúsund manns á vellinum. Magnað og gott dæmi um þann gríðarlega vöxt sem hefur orðið í kvennaboltanum á síðustu árum.

Það er alltaf jafngaman að vinna
„Það var gaman að fá að vita að ég myndi byrja," segir Sveindís en hún var í byrjunarliði Wolfsburg og hrellti varnarmenn Arsenal í leiknum. „Ég var búin að undirbúa mig fyrir það að byrja áður en liðið var tilkynnt. Það er alltaf minna stressandi að vera inn á en á bekknum. Mér leið vel inn á vellinum."

„Eftir á er þetta bara venjulegur fótboltaleikur. Það var auðvitað skemmtilegt að það væri fullur völlur á Emirates en ég var ekki meira stressuð fyrir þessum leik en ekki einhverjum öðrum. Ég reyndi bara að hugsa um þetta eins og venjulegan fótboltaleik þó það hafi verið mikið undir."

Sveindís sagði frá því í hinni hliðinni árið 2019 að uppáhaldsliðið hennar í enska boltanum væri Arsenal. Hvernig var það að vera hluti af liði Wolfsburg sem sló Arsenal úr keppni?

„Arsenal er kannski frekar uppáhaldsliðið mitt í enska karlaboltanum. Það var gaman að mæta Arsenal og klikkað að fá að upplifa það að spila á Emirates. Ég spilaði aðeins þarna í fyrra þegar við mættum þeim í Meistaradeildinni en það var allt öðruvísi að byrja. Þetta var geggjað. Það var kannski extra sætt að slá út Arsenal, ég veit það ekki. Það er bara alltaf jafn gaman að vinna."

Hefði ekki getað verið sætara
Sveindís á stóran þátt í því að Wolfsburg er að fara í úrslitaleikinn en hún skoraði bæði og lagði upp í fyrri leiknum sem endaði 2-2. Hún átti svo góðan leik á Emirates.

„Það var auðvitað gaman að skora og leggja upp, en enn skemmtilegra að vinna leikinn úti og komast í úrslitaleikinn," segir Sveindís en Wolfsburg skoraði sigurmarkið í seinni leiknum á síðustu mínútu framlengingarinnar.

„Þetta hefði ekki getað verið sætara held ég. Ég var komin út af þegar við skoruðum sigurmarkið en þetta var ótrúlegt. Maður var farinn að undirbúa sig fyrir vítaspyrnukeppni, en þá skiptir engu máli hvort liðið er betra á vellinum; þá er þetta meira bara 50/50. Það var geðveikt að geta klárað þetta fyrir vítaspyrnukeppni. Eftir á að hyggja þá held ég að við höfum verið betra liðið. Arsenal hefur lent í fullt af meiðslum og það vantaði sterka leikmenn í þeirra lið. Þetta var ótrúlega vel gert hjá þeim en ég er stolt af okkur, að við séum komnar í úrslitaleikinn."

Það er bara gaman og ég er stolt af því
Stuðningsfólk Barcelona, sem Wolfsburg mætir í úrslitaleiknum, hefur talað um það á samfélagsmiðlum að það sé stress fyrir úrslitaleiknum, að þurfa að mæta Sveindísi og þeim hraða sem hún býr yfir.

„Ég hef ekkert tekið eftir því en það er gaman að heyra. Það er auðvitað gaman að heyra svona en þetta skiptir ekki máli. Það er enn langt í leikinn og við fáum góðan tíma til að undirbúa okkur. Við eigum mikilvæga leiki framundan í deildinni og erum að fara í bikarúrslit," segir Sveindís en hún er þriðji Íslendingurinn til að fara í úrslitaleik Meistaradeildarinnar á eftir Eiði Smára Guðjohnsen og Söru Björk Gunnarsdóttur.

„Ég heyrði það bara fyrst í gær. Það er auðvitað bara gaman og ég er stolt af því. Það skiptir samt mestu máli hvernig liðinu gengur og núna verðum við að mæta vel stemmdar í leikinn og ná titlinum."

Mér líst mjög vel á að mæta Barcelona
Barcelona er gríðarlega sterkt lið en Sveindís er spennt fyrir því að mæta Katalóníustórveldinu.

„Mér líst mjög vel á að mæta Barcelona. Það er geggjað að fá að mæta þeim aftur en við spiluðum líka við þær í fyrra. Þá gekk ekkert rosalega vel í fyrri leiknum en við unnum seinni leikinn. Við höfum einhverja reynslu af þeim og þekkjum þær. Við getum séð hvar þeirra veikleikar eru og það er möguleiki á að vinna þær. Ég held að við séum með nægilega gott lið til að valda miklum usla."

Sveindís viðurkennir að það yrði frábært að fá að byrja úrslitaleikinn en hún er tilbúin að hjálpa liðinu hvernig sem er.

„Jú, það væri geggjað að fá það traust. Ég hef verið að fá traust í stóru leikjunum. Ég held að ég hafi verið að standa mig vel í þeim. Ég er þakklát að fá traustið, en ég er tilbúin að byrja inn á eða þá að koma inn á. Það eina sem skiptir mig máli er að við vinnum leikina," segir Sveindís og bætir við:

„Ég hef ekki mikið pælt í því núna hvernig það væri að lyfta Meistaradeildarbikarnum. Við erum komnar í úrslitin en ég hef voða lítið pælt í úrslitaleiknum enn sem komið er. Það kemur bráðum. Við erum mikið núna að undirbúa okkur undir síðustu deildarleikina og bikarúrslitaleikinn. Við eigum möguleika á titlum þar. Bikarúrslitaleikurinn er í okkar höndum en deildin ekki alveg. Við þurfum að vinna okkar leiki en við þurfum að treysta á að Bayern geri jafntefli eða tapi einhverjum leik. Það er ekki mikið eftir og maður er ekkert rosalega bjartsýnn en ég verð að halda í vonina. Við sjáum til hvað gerist."

Úr 1. deildinni á stærsta sviðið á fimm árum
Árið 2018 var Sveindís, sem er núna 21 árs, að spila í 1. deildinni á Íslandi með Keflavík. Hún hefur svo unnið sig hratt upp stigann og þann 3. júní næstkomandi gæti hún spilað í úrslitaleik Meistaradeildar Evrópu með sínu liði. Wolfsburg er eitt sterkasta lið Evrópu en liðið er sem stendur í öðru sæti þýsku úrvalsdeildarinnar og er liðið einnig komið í úrslitaleik þýska bikarsins.

„Það eru einhver fimm ár síðan ég var að spila í 1. deildinni, nokkur ár. Það er fínt að það hafi gengið svona vel hingað til," segir Sveindís sem spilaði með Breiðabliki og Kristianstad í Svíþjóð áður en hún fór til Wolfsburg.

„Vonandi heldur það áfram. Þetta sýnir að það er allt hægt. Þegar þú spilar vel í Bestu deildinni þá ertu kannski ekkert rosalega langt frá sterkustu deildum heims. Það er allt hægt ef maður er til í að leggja vinnuna á sig," sagði þessi maganaða fótboltakona að lokum.

Sjá einnig:
Sveindís ánægð með tímabilið en ætlar sér að vinna Meistaradeildina
Athugasemdir
banner
banner
banner
banner