Man Utd eflir leit sína að liðsstyrk - David ofarlega á blaði - Ítölsk félög vilja Greenwood - Liverpool vill Olise
   mán 03. júní 2024 21:11
Brynjar Ingi Erluson
Besta deildin: Átta mörk og rautt spjald er Valur vann KR
Patrick Pedersen fagnar í vesturbænum í kvöld.
Patrick Pedersen fagnar í vesturbænum í kvöld.
Mynd: Fótbolti.net - Eyjólfur Garðarsson
Aron Sigurðarson skoraði frábært mark sem kom KR yfir
Aron Sigurðarson skoraði frábært mark sem kom KR yfir
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
Patrick Pedersen skoraði tvö í fyrri hálfleik
Patrick Pedersen skoraði tvö í fyrri hálfleik
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
Finnur Tómas fékk að líta rauða spjaldið
Finnur Tómas fékk að líta rauða spjaldið
Mynd: Fótbolti.net - Eyjólfur Garðarsson
KR 3 - 5 Valur
1-0 Aron Sigurðarson ('6 )
2-0 Benoný Breki Andrésson ('7 )
2-1 Tryggvi Hrafn Haraldsson ('12 )
2-2 Patrick Pedersen ('31 )
2-3 Tryggvi Hrafn Haraldsson ('33 )
2-4 Patrick Pedersen ('37 )
2-5 Gísli Laxdal Unnarsson ('74 )
3-5 Kristján Flóki Finnbogason ('91 )
Rautt spjald: Finnur Tómas Pálmason, KR ('61) Lestu um leikinn

Valur vann magnaðan 5-3 sigur á KR í lokaleik 9. umferðar Bestu deildar karla á Meistaravöllum í kvöld. Patrick Pederson og Tryggvi Hrafn Haraldsson skoruðu báðir tvö mörk.

Gestirnir frá Hlíðarenda fengu blauta tusku í andlitið á 6. mínútu leiksins. Aron Sigurðarson fékk boltann fyrir utan teiginn, lagði hann á hægri og þrumaði honum neðst í vinstra hornið.

Aðeins rúmri mínútu síðar var staðan orðin 2-0 fyrir KR-ingum. Atli Sigurjónsson fékk boltann hægra megin í teignum, en skot hans var slappt. Sóknin var ekki búin því Jakob Franz Pálsson hreinsaði boltann á vinstri vænginn á Theodór Elmar Bjarnason sem lagði hann aftur fyrir á sig Aron Sigurðar. Hann lyfti boltanum á fjærstöng og þar var Benoný Breki Andrésson aleinn á auðum sjó og ekki í vandræðum með að skalla boltanum í netið.

Valsmenn voru ítrekað að nýta sér vindinn í löngu boltunum, sem var að skapa alls konar vandræði fyrir KR. Fyrsta mark Vals kom einmitt eftir þannig bolta.

Tryggvi Hrafn fékk boltann vinstra megin við teiginn. Guðmundur Andri Tryggvason var með honum og tók hlaupið og náði þannig að skapa meira pláss fyrir Tryggva sem setti boltann á hægri fótinn og hamraði honum efst í hægra hornið.

Liðin skiptust á nokkrum færum næstu fimmtán mínúturnar. Jónatan Ingi Jónsson fékk ágætis færi í teignum en setti boltann beint á Guy Smit og þá setti Ægir Jarl Jónasson boltann rétt framhjá markinu hinum megin á vellinum.

Eftir það tók Valur öll völd. Patrick Pedersen jafnaði metin á 31. mínútu. Jakob Franz fékk boltann í djúpinu, kom með fyrirgjöf yfir vörn KR-inga og á Pedersen sem skoraði.

Tveimur mínútum síðar skoraði Tryggvi annað mark sitt. Birkir Már Sævarsson lagði boltann niður á Frederik Schram, markvörð Vals, sem fékk dágóðan tíma á boltann. Hann tók síðan lang spark fram völlinn sem varð að geggjaðri sendingu á Tryggva, sem náði að teygja sig í boltann og pota honum undir Smit í markinu.

Valur kom sér í tveggja marka forystu á 37. mínútu. Kristinn Freyr Sigurðsson kom með algera perlusendingu á Jónatan Inga sem var hægra megin í teignum. Hann reyndi skot, en fékk boltann aftur, færði hann á vinstri og á aleinan Pedersen sem skallaði boltann í markið.

Ótrúlegt að enginn hafi verið að dekka hættulegasta mann Valsara í teignum. Í kjölfarið var Rúrik Gunnarsson tekinn af velli inn kom Lúkas Magni Magnason.

Tryggvi fékk tvö dauðafæri til að fullkomna þrennun fyrir lok fyrri hálfleiks, en brást bogalistin.

Það var ekki boðið upp á sama fjörið í þeim síðari. Það var nokkuð rólegt yfir þessu til að byrja með, en á 61. mínútu var Gísli Laxdal að sleppa í gegn er Finnur Tómas Pálmason reif hann niður.

Boltinn kom skoppandi að KR-ingnum, sem missti hann í gegnum sig og á Gísla. Finnur ákvað í kjölfarið að rífa hann niður og uppskar rautt spjald fyrir.

Valur var nálægt fimmta markinu þegar tuttugu mínútur voru eftir. Fyrst átti Jónatan Ingi vippu í stöng. Boltinn fór þaðan á Adam Ægi Pálsson sem lét vaða, en þá var bjargað á línu áður en Tryggvi skaut boltanum yfir markið.

Tryggvi var áfram í leit að þrennunni og aftur var hann nálægt ef ekki hefði verið fyrir frábæra markvörslu Smit. Tryggva var bara ekki ætlað að skora þrennu í kvöld.

Annar Skagamaður komst samt á blað og það annan leikinn í röð. Birkir Már Sævarsson sendi Gísla Laxdal í gegn, sem var yfirvegaður í teignum og lagði boltann í vinstra hornið.

Á lokamínútunum fengu KR-ingar sárabótarmark er Aron Sigurðar kom með fyrirgjöfina inn í teiginn en boltinn fór af varnarmanni Vals sem skallaði hann aftur fyrir sig og þar lúrði Kristján Flóki Finnbogason sem stýrði boltanum í netið.

Skelfileg byrjun Vals í leiknum en þeir komu til baka og var þetta aldrei í hættu eftir það. Annar sigur Vals í röð og liðið nú með 21 stig í 3. sæti deildarinnar en KR með 11 stig í 8. sæti.
Besta-deild karla
Lið L U J T Mörk mun Stig
1.    Víkingur R. 11 8 2 1 27 - 12 +15 26
2.    Breiðablik 11 8 1 2 26 - 13 +13 25
3.    Valur 11 6 4 1 25 - 14 +11 22
4.    ÍA 10 5 1 4 20 - 14 +6 16
5.    Stjarnan 11 5 1 5 21 - 20 +1 16
6.    FH 10 4 2 4 18 - 20 -2 14
7.    Fram 10 3 4 3 13 - 14 -1 13
8.    KR 10 3 2 5 19 - 21 -2 11
9.    HK 10 3 1 6 10 - 18 -8 10
10.    Vestri 10 3 1 6 13 - 23 -10 10
11.    Fylkir 10 2 1 7 15 - 27 -12 7
12.    KA 10 1 2 7 14 - 25 -11 5
Athugasemdir
banner
banner
banner