Napoli í viðræðum um Garnacho - Villa hafnaði tilboði West Ham í Duran - Vlahovic orðaður við Chelsea
   mán 03. júní 2024 10:44
Guðmundur Aðalsteinn Ásgeirsson
Sautján ára Húsvíkingur langmarkahæstur í 2. deild
Jakob Gunnar Sigurðsson.
Jakob Gunnar Sigurðsson.
Mynd: Hafþór Hreiðarsson
Það er athyglisvert að þegar fimm umferðir eru búnar í 2. deild karla að þá er Jakob Gunnar Sigurðsson úr Völsungi langmarkahæsti leikmaður deildarinnar.

Jakob Gunnar, sem er stór og stæðilegur sóknarmaður, skoraði þrennu þegar Völsungur gerði góða ferð á Ásvelli síðasta laugardag. Húsvíkingar unnu þar 1-3 sigur og skoraði Jakob Gunnar öll þrjú mörk sinna manna.

Jakob Gunnar er að spila sitt þriðja tímabil í meistaraflokki. Í fyrra spilaði hann 16 leiki en skoraði aðeins eitt mark. Núna er hann búinn að gera átta mörk í fimm deildarleikjum.

Næst markahæsti leikmaður 2. deildar er Luke Williams úr Víkingi Ólafsvík en hann hefur gert fjögur mörk.

Þessi efnilegi sóknarmaður, sem er fæddur árið 2007, lék einnig með Aftureldingu í yngri flokkunum en það eru nú þegar félög í deildum fyrir ofan farin að horfa til hans. Heyrst hefur að Íslands- og bikarmeistarar Víkings séu á meðal þeirra félaga sem hafa verið að skoða hann.

Völsungur er í þriðja sæti 2. deildar eftir fimm umferðir með níu stig.
Athugasemdir
banner
banner
banner