Sancho vill ekki snúa aftur til Man Utd - Dumfries vill fara til Man Utd - Chelsea vill Osimhen
banner
   fim 03. september 2020 18:56
Ívan Guðjón Baldursson
Mjólkurbikar kvenna: Valur tapaði á Selfossi - Þór/KA og KR áfram
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
Þremur leikjum var að ljúka í Mjólkurbikar kvenna og áttu áhugaverð úrslit sér stað á Selfossi, þar sem ríkjandi bikarmeistarar höfðu betur gegn Íslandsmeisturum Vals.

Staðan var markalaus eftir bragðdaufan fyrri hálfleik en Valur tók stjórnina eftir leikhlé, án þess þó að koma knettinum í netið.

Það var Hólmfríður Magnúsdóttir sem braut ísinn, þvert gegn gangi leiksins, með laglegu marki á 75. mínútu eftir sendingu frá Dagnýju Brynjarsdóttur. Hólmfríður lét vaða af vítateigslínunni og söng boltinn í netinu.

Valskonur pressuðu stíft á lokakaflanum og fengu dæmda vítaspyrnu á 86. mínútu en Elín Metta Jensen lét Kaylan Jenna Marckese verja frá sér. Kaylan átti stórgóðan leik og bjargaði Selfyssingum nokkrum sinnum meistaralega.

Gestunum úr Hlíðunum tókst ekki að jafna og er bikarliðið mikla Selfoss komin í undanúrslit enn eina ferðina.

Textalýsing

Selfoss 1 - 0 Valur
1-0 Hólmfríður Magnúsdóttir ('75)
1-0 Elín Metta Jensen ('87, misnotað víti)

Þá eru Þór/KA og KR einnig komin í undanúrslit eftir sigra gegn Haukum og FH.

Þór/KA gjörsamlega stjórnaði gangi mála gegn Lengjudeildarliði Hauka en hafnfirsku stelpurnar mættu agaðar og ákveðnar til leiks og var staðan því markalaus fram að 56. mínútu, þegar Vienna Behnke skoraði úr vítaspyrnu gegn gangi leiksins.

Varnarmaðurinn öflugi Arna Sif Ásgrímsdóttir jafnaði ellefu mínútum síðar með skalla eftir aukaspyrnu og lifnaði heldur betur við leiknum.

Liðin skiptust á að sækja í tíu mínútur, allt þar til Berglind Baldursdóttir náði að fylgja skoti Maríu Catharinu Gros eftir. Akureyringar bættu síðasta marki leiksins við á síðustu sekúndum uppbótartímans, þar var Hulda Karen Ingvarsdóttir á ferð eftir hornspyrnu.

Textalýsing

Þór/KA 3 - 1 Haukar
0-1 Vienna Behnke ('56, víti)
1-1 Arna Sif Ásgrímsdóttir ('67)
2-1 Berglind Baldursdóttir ('78)
3-1 Hulda Karen Ingvarsdóttir ('95)

Í Hafnarfirði tók FH á móti KR og voru Vesturbæingar betri í fyrri hálfleik. Katrín Ómarsdóttir skoraði snemma og komust gestirnir nálægt því að bæta við marki fyrir leikhlé.

FH jafnaði í upphafi síðari hálfleiks þegar Angela R. Beard gerði óheppilegt sjálfsmark og var leikurinn jafnari eftir leikhlé. Bæði lið komust nálægt því að taka forystuna áður en Katrín Ásbjörnsdóttir gerði sigurmark KR á 80. mínútu.

FH tókst ekki að jafna leikinn á lokakaflanum og því eru KR, Þór/KA og Selfoss komin í undanúrslit. Viðureign ÍA og Breiðabliks fer af stað innan skamms þar sem liðin berjast um síðasta sætið í undanúrslitum.

Textalýsing

FH 1 - 2 KR
0-1 Katrín Ómarsdóttir ('13)
1-1 Angela R. Beard ('50, sjálfsmark)
1-2 Katrín Ásbjörnsdóttir ('80)
Athugasemdir
banner
banner
banner