Eze, Rabiot, Dyche, Howe og miðjumannsleit Liverpool í slúðurpakka dagsins
banner
   þri 03. september 2024 06:00
Brynjar Ingi Erluson
Suarez leikur sinn síðasta landsleik á föstudag
Luis Suarez
Luis Suarez
Mynd: EPA
Suarez grét á blaðamannafundinum
Suarez grét á blaðamannafundinum
Mynd: Getty Images
Úrúgvæski sóknarmaðurinn Luis Suarez mun formlega leggja landsliðsskóna á hilluna á föstudag en hann greindi frá þessu á blaðamannafundi í nótt.

Suarez er 37 ára gamall og er talinn einn allra besti leikmaður í sögu Úrúgvæ.

Hann á 142 landsleiki að baki og hefur gert 69 mörk. Framherjinn er sá markahæsti í sögu landsliðsins og annar leikjahæsti á eftir Diego Godin.

Það má deila um stærsta augnablik hans með landsliðinu. Suarez varð Suður-Ameríkumeistari með liðinu árið 2011, en árið áður komst hann í fréttirnar þegar hann fórnaði sér í 8-liða úrslitum heimsmeistaramótsins.

Úrúgvæ var að spila gegn Gana. Staðan var 1-1 í leiknum og fékk Gana aukaspyrnu fyrir utan teiginn á lokamínútunni í framlengingu. Boltanum var komið inn í teiginn, en eftir darraðardans barst boltinn til Dominic Adiyiah sem stangaði hann í átt að marki. Suarez sá að hann gat ekki skallað boltann, þannig hann ákvað að verja hann með hendinni og uppskar rautt spjald fyrir.

Suarez gekk grátandi af velli en þessi fórn hans reyndist þjóð hans vel því Asamoh Gyan þrumaði vítaspyrnunni himinhátt yfir markið og Suarez því létt. Í vítaspyrnukeppninni hafði Úrúgvæ betur og komst í undanúrslit en eðlilega var Suarez ekki með í þeim leik.

Á föstudag verður hann heiðraður fyrir leik Úrúgvæ og Paragvæ, en það verður hans síðasti landsleikur áður en skórnir fara upp í hillu.

„Þetta er rétti tíminn. Þetta er erfið stund en ég mun spila minn síðasta leik eins og ég gerði í fyrsta landsleiknum, með sömu þrá og áhuga sem þessi 19 ára strákur hafði,“ sagði Suarez tárvotur á blaðamannafundinum.
Athugasemdir
banner
banner