Rashford gæti farið frá Man Utd í janúar - Davies hefur áhuga á að fara til Liverpool - Fer Kobel til Chelsea?
   fim 03. október 2024 13:42
Sæbjörn Þór Þórbergsson Steinke
Búið að handsala samkomulag um að Venni verði áfram hjá Þrótti
Lengjudeildin
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
Sigurvin Ólafsson verður áfram þjálfari Þróttar á næsta tímabili. Hann samdi við félagið síðasta vetur og var með áframhaldandi samning. En í honum var uppsagnarákvæði.

Venni, eins og Sigurvin er kallaður, hefur verið orðaður við uppeldisfélagið ÍBV sem er í þjálfaraleit.

Kristján Kristjánsson, formaður knattspyrnudeildar Þróttar, staðfestir í samtali við Fótbolta.net að Venni verði áfram hjá félaginu.

„Hann verður áfram hjá okkur, við erum búin að ganga frá því við hann," segir Kristján.

Hafði ÍBV samband við ykkur varðandi Venna?

„Ekki við félagið nei, ef þeir höfðu samband við hann þá hafa þeir gert það án þess að tala við okkur. Hann er með samning, það var uppsagnarákvæði í honum, en við erum búin að handsala samkomulag um að hvorugur aðilinn ætlar að nýta sér það."

Þróttur endaði í 7. sæti Lengjudeildarinnar í sumar á fyrsta tímabili Venna sem þjálfari liðsins. Liðið byrjaði illa en náði góðu skriði og var ekki í neinni fallhættu seinni hluta tímabilsins.

Sex leikmenn Þróttar verða samningslausir á næstu mánuðum. Kristján segir að þessi mál séu í skoðun þessa dagana.

„Það eru örfáir með lausa samninga, við erum aðeins að fara yfir okkar mál, sjá hvaða breytingar við viljum gera. Þær verða ekki miklar, ég get alveg sagt það, en einhverjar. Þetta er allt í deiglunni," segir formaðurinn.
Athugasemdir
banner
banner
banner