Real Madrid setur sig í samband við Dalot - Gyökeres til United eða City - Salah til í eins árs samning - Rooney reynir að bjarga starfinu
   þri 03. desember 2024 15:56
Sæbjörn Þór Þórbergsson Steinke
Útskýrir pælinguna á bakvið lykilorð í fótbolta - „Eins og að fá rafstuð"
'Liðið var með lykilorð og ég líka, ég þurfti að vita þau og ef leikmennirnir klikkuðu á þeim þá kallaði ég þau inn á.'
'Liðið var með lykilorð og ég líka, ég þurfti að vita þau og ef leikmennirnir klikkuðu á þeim þá kallaði ég þau inn á.'
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
'Lykilorð eru algjör snilld'
'Lykilorð eru algjör snilld'
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
'Jarðarber'.
'Jarðarber'.
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
Markmaður HB hélt hreinu gegn Salzburg, hélt góðri einbeitingu eftir að hafa heyrt lykilorðið sitt.
Markmaður HB hélt hreinu gegn Salzburg, hélt góðri einbeitingu eftir að hafa heyrt lykilorðið sitt.
Mynd: Heimasíða HB
Kristján Guðmundsson, annar af þjálfurum kvennaliðs Vals, var gestur í hlaðvarpsþættinum Berjast sem þeir Hilmar Árni Halldórsson og Arnar Guðjónsson stýra.

Kristján er mjög reynslumikill þjálfari sem hefur m.a. þjálfað karlalið Keflavíkur, Vals og ÍBV. Hann var svo hjá Stjörnunni og stýrði kvennaliði félagsins í fimm og hálft tímabil áður en hann hætti í sumar. Hann var svo ráðinn til Vals í lok október.

Í þættinum ræðir Kristján um þjálfun og svarar spurningum þáttarstjórnenda. Eitt af því sem hann er spurður út í eru lykilorð. Kristján hefur notast við lykilorð, bæði fyrir liðið sitt og svo annað fyrir leikmenn. Hann útskýrir hugsunina á bakvið lykilorð í þættinum.

„Við byrjuðum á að taka slökun. Þá voru ákveðin orð sem ég setti inn hjá leikmönnum, þeir leggjast, slaka á og þeim sagt hvað þeir eiga að hugsa um. Ég stjórnaði 2-3 fyrstu skiptunum en svo tóku leiðtogar í hópnum við stjórninni. Ég sagði bara hvaða orð ætti að tala um og hversu lengi. Leikmenn tóku þetta algjörlega að sér, þetta varð þeirra. Þetta gekk alveg gríðarlega vel, margt sem gekk vel upp," sagði Kristján sem var þjálfari Keflavíkur á þessum tíma.

„Ég man ekki töluna á því hversu marga við misstum í leikbann út af áminningum tímabilið á undan. Það munar svo mikið um það, það kemur ekki maður í manns stað í fótbolta, þó að annar komi inn og fylli inn í og alltaf 11 inn á."

„Eitt verkefnið var að haga sér almennilega inni á vellinum passa upp á alla hegðun gagnvart dómara og andstæðingnum. Við bjuggum til lykilorð gagnvart dómaranum og við misstum ekki einn leikmann allt Íslandsmótið vegna fjögurra áminninga. Eina leikbannið var fyrir rautt spjald hjá leikmanni sem var bara búinn að æfa með okkur í tvær vikur, þannig hann var ekki kominn inn á rútínuna."

„Liðið var með lykilorð og ég líka, ég þurfti að vita þau og ef leikmennirnir klikkuðu á þeim þá kallaði ég þau inn á. Svo voru einstaklingar líka með lykilorð og ég þurfti að muna þeirra orð til þess að stoppa þá af þeir voru að fara í eitthvað. Lykilorð eru algjör snilld."

„Lykilorðið er beintenging við heilabúið í þér. Leikmaðurinn ákveður sjálfur sitt eigið lykilorð og leikmannahópurinn ákveður lykilorðin fyrir liðið sem þarf að kalla inn á vellinum. Lykilorðið sem við höfðum á dómarann þurfti að vera eitthvað mjúkt, eitthvað sem dregur úr, eitthvað sem gefur þér vellíðunartilfinningu. Við notuðum orðið jarðarber um dómarann. Ef einhver kallar í þig 'jarðarber' þá ertu ekki að fara ausa einhverju yfir dómarann. Þegar þú svo verst föstum leikatriðum hugsuðu menn um einhvern sem væri sterkur í að skalla frá, orðið þarf að kveikja á ákveðinni framkvæmd."

„Einstaklingslykilorðin þurfa að hafa þau áhrif að þegar þjálfarinn kallar á mig eða þegar leikmaðurinn segir orðið við sjálfan sig að þá fari hugsunin á réttan stað."


Hilmar Árni sagði frá því að orðið 'verkefni' hafi verið notað í föstum leikatriðum hjá Leikni undir stjórn Freys Alexanderssonar. Kristján segir af einni reynslu sinni af lykilorði.

„Þegar ég var að þjálfa í Færeyjum sótti ég inn annan markmann í liðið. Það olli að sjálfsögðu miklum heilabrotum því að markmaður þessi var færeyskur og var ekki talinn sérstaklega góður því hann gerði stór mistök í leik. Ég vann með honum í markmiðasetningu og kom með lykilorð. Hann útskýrði fyrir mér að hann missti algjörlega einbeitingu inn á vellinum. Við vorum að spila í Evrópukeppninni á heimavelli á móti Salzburg. Hann tekur einhverja stóra vörslu á fimmtu mínútu og missir í kjölfarið stjórn og gerði eitthvað bull í næsta atviki. Þá kallaði ég lykilorðið í hann. Eftir það á hann stórleik, við vinnum leikinn 1-0 og hann ver einn á móti einum. Hann sendi á mig skilaboð eftir leik og sagði að þegar ég hefði kallað orðið á hann þá hefði það verið eins og að fá rafstuð, sagðist hafa náð stjórn á einbeitingunni aftur. Svona áhrif geta lykilorðin haft," sagði Kristján sem var þarna þjálfari HB í Færeyjum.

„Ég prófaði þetta aðeins í sumar, leikmaður sem var alltaf að finna eitthvað neikvætt og láta hlutina fara í taugarnar á sér. Viðkomandi hafði enga reynslu af þessu og við æfðum þetta aðeins inn á æfingum. Leikmaðurinn kom með orð til mín, þetta var mjög skrítið orð, engin tenging við íþróttir. Í leik byrjaði leikmaðurinn á þessari hegðun og ég kallaði orðið. Það virkaði og hún lýsti því eins og að hafa fengið stuð í hausinn," sagði Kristján sem þjálfaði kvennalið Stjörnunnar fyrri hluta sumars.

Athugasemdir
banner
banner
banner
banner