Gary Lineker, umsjónarmaður Match of the Day á BBC til margra ára og þáttarstjórnandi The Rest is Football hlaðvarpsins, kallar eftir reglubreytingu í enska bikarnum eftir að hafa horft á leik Manchester United og Fulham um helgina.
Lineker vill sleppa framlengingu í leikjum keppninnar og vill að farið verði beint í vítaspyrnukeppni.
Lineker vill sleppa framlengingu í leikjum keppninnar og vill að farið verði beint í vítaspyrnukeppni.
Calvin Bassey kom Fulham yfir í lok fyrri hálfleiks og Bruno Fernandes jafnaði svo fyrir United í seinni hálfleik. Við tók tæplega klukkutími af fótbolta þar sem ekki var skorað mark.
„Við höfum rætt þetta margoft, hættum með framlengingu og förum bara beint í vító. Það er bara rökrétt," sagði Lineker í hlaðvarpinu.
„Sérstaklega ef horft er í magnið af leikjum sem liðin spila þessa dagana, fjöldan af meiðslum sem við sjáum. Spilum bara 90 mínútur og svo ræður vítaspyrnukeppni úrslitum. Því þegar farið er í framlengingu þá hugsum við flest, sérstaklega þegar hún er jafn döpur og sú sem var spiluð í gær, vonandi fer þetta í vítaspyrnukepnpni, þar sjáum við smá spennu," sagði Lineker og markamaskínan Alan Shearer var sammála honum.
„Beint í vító, ég styð það heilshugar," sagði Shearer. Þetta er ekki í fyrsta sinn sem þeir félagar ræða um reglurnar í enska bikarnum.
„Við hættum með endurtekna leiki eftir jafntefli og erum með framlengingu. Persónulega finnst mér að fyrst að endurteknu leikirnir eru teknir út að þá eigi að taka framlenginguna út. Annars hentar það sterkari liðunum því þau eru með stærri hópa og geta sett bestu leikmennina inn á ef það þarf að bjarga hlutunum í framlengingu," sagði Lineker í þætti sínum í janúar eftir að Tottenham sló út Tamworth.
Fulham sló út Man Utd á sunnudag og mætir Crystal Palace í 8-liða úrslitum.
Athugasemdir