Liverpool reynir aftur við Zubimendi - Isak til Arsenal - Wirtz á óskalista Bayern
   mán 04. maí 2020 09:15
Þórir Hákonarson
Pistill: Pistlar á Fótbolta.net eru viðhorf höfundar og þurfa ekki endilega að endurspegla viðhorf vefsins eða ritstjórnar hans.
Erum við tilbúin í Íslandsmót?
Þórir Hákonarson
Þórir Hákonarson
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
Úr leik í Pepsi Max-deildinni í fyrra.
Úr leik í Pepsi Max-deildinni í fyrra.
Mynd: Hulda Margrét
Úr leik í Pepsi-Max deild kvenna.
Úr leik í Pepsi-Max deild kvenna.
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
Verða takmarkanir á fjölda áhorfenda?
Verða takmarkanir á fjölda áhorfenda?
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
Nú liggur fyrir að ætlunin er að hefja Íslandsmótið í knattspyrnu um miðjan júní og bikarkeppnina eitthvað fyrr og þá vakna spurningar um hvort við erum tilbúin til þess að hefja þessi mót undir þeim kringumstæðum sem nú ríkja. Mótin verða þétt leikin og algerlega ljóst að ekkert má útaf bregða í vörnum okkar allra gegn útbreiðslu veirunnar svo ekki fari illa varðandi mótahaldið.

Að undanskildu því augljósa, þ.e. að vernda heilsu þeirra sem að leikjunum koma og landsmanna allra reyndar þá er mótahaldið sjálft einstaklega viðkvæmt fyrir því að einhver smit finnist innan raða leikmanna, dómara, starfsmanna eða hugsanlega áhorfenda að leikjunum og alls staðar í kringum okkur þar sem framkvæmdaaðilar deilda eru í kappi við tímann og þurfa hugsanlega að spila mjög þétt og marga leiki á tiltölulega stuttum tíma er verið að undirbúa mjög ítarlegar reglur og tilmæli sem leikmenn og aðrir verða að fara eftir, jafnvel ítarlegri og „harðari“ reglur en almennt er verið að setja fyrir almenning. Þetta er skiljanlegt í ljósi þess að mótahaldið er einstaklega viðkvæmt fyrir því að smit berist inn í hópana, einn leikmaður með smit getur orðið til þess að bæði lið t.d. í leik þurfa að fara að í sóttkví auk starfsmanna og hugsanlega mótherja úr öðrum leikjum á undan þeim sem smitið fannst og þar með er allt mótið komið í uppnám.

Enn sem komið er hafa lítil sem engin tilmæli borist frá yfirvöldum knattspyrnunnar hér á landi önnur en þau að félögin verði að kynna sér þau fyrirmæli og tilmæli sem yfirvöld heilbrigðismála og almannavarna gefa út hverju sinni. Þetta dugar ekki. Knattspyrnuhreyfingin verður í heild sinni að hugleiða hvort ástæða er til þess að ganga lengra heldur en almennar reglur þessara yfirvalda segja til um og þá með það í huga að vernda mótahaldið eins og kostur er og reyna að tryggja að það geti farið fram með eðlilegum hætti á þeim tiltölulega stutta tíma sem við höfum til þess að klára mótin.

Í nokkrum okkar nágrannalanda er verið að vinna mjög ítarleg fyrirmæli til framkvæmdaaðila leikja, leikmanna, dómara og fleiri um hvernig bæði æfingar geta farið fram sem og leikirnir sjálfir. Einhverjir ætla að ganga svo langt að tilnefna umsjónaraðila/eftirlitsaðila með hverju liði í efstu deild til þess að tryggja að allir fari eftir sömu reglum og fyrirmælum og leiðbeina um leið þeim liðum um hvernig á að framkvæma bæði æfingar og leiki auk þess sem liðunum er bent á einn aðila sem þau geta verið í sambandi við séu þau í einhverjum vafa um framkvæmd. Auðvitað er þetta í stærstum dráttum þau atriði sem við höfum þegar verið að tileinka okkur, öflugur og tíður handþvottur, virða fjarlægðarmörk þar sem það er hægt, aðskilja hópa eins og hægt er o.s.frv. en við þetta bætast svo atriði sem ganga lengra, t.d. bara þrif á salernum oft á dag, engin sameiginleg máltíð fyrir leikmenn, ítarleg áætlun liðanna um aðskilnað liðanna og starfsmanna fyrir og eftir leik, fjarlægðir innan varamannaskýla, hlutverk boltakrakka (allir í hönskum og hafa tækifæri til að þrífa bolta sem fer útaf), skýr aðskilnaður upphitunarsvæða, aðskilnaður fjölmiðlamanna og fleira og fleira. Það er m.a.s. gengið svo langt í hugmyndum að banna aðilum sem koma að framkvæmd leikjanna, þ.m.t. leikmönnum, að umgangast aðra á milli leikja en sína allra nánustu og að þeir aðilar fari t.d. ekki í fjölmenni eins og stórmarkaði, almenningssamgöngur o.fl. slíkt og að engar veitingar séu fyrir hvorki leikmenn, dómara eða aðra starfsmenn á leikstað, allir verða að koma með eigin veitingar. Í þessu samhengi þarf jafnframt að hugleiða hvort strangar reglur eða fyrirmæli hafa í för með sér einhvern aukakostnað og þá hver eigi að bera þann kostnað.

Allt eru þetta atriði og fleiri til sem félögin og knattspyrnuyfirvöld verða að koma sér saman um hvernig eiga að vera og langt því frá nægjanlegt að lesa bara í auglýsingu frá Heilbrigðisráðuneyti um almenn atriði hvað varðar varnir gegn útbreiðslu veirunnar. Þarna þarf að ganga lengra og það þarf að tryggja að félögin öll, a.m.k. í efstu deildum, fari eftir sömu reglum og tilmælum til þess að minnka áhættuna sem mest og reyna eftir mætti að tryggja að ekkert fari úrskeiðis þannig að mótið geti farið fram með sem „eðlilegustum“ hætti miðað við aðstæður og ekki þurfi að koma til þess að kæruleysi einstakra aðila eða liða geti sett mótahaldið í hættu. Ég ítreka að hér er ekki verið að fjalla um hið augljósa sem við öll þurfum að fylgja, þ.e. að tryggja heilsu hvers og eins gegn útbreiðslu veirunnar, heldur hvað þarf til þess að við getum farið inn í Íslandsmót í knattspyrnu með sem fæsta áhættuþætti og mögulegt er og að við getum þar með leikið Íslandsmótið til enda skv. áður útgefnum áætlunum. Hér þurfum við kannski ekki að ganga eins langt og aðrir eru að velta fyrir sér en það er amk alveg ljóst að við þurfum að setja saman einhverjar sameiginlegar reglur fyrir öll okkar lið til þess að fara eftir, fylgja því eftir og reyna eftir öllum mætti að tryggja að ekki komi upp smit innan þess hóps sem kemur að framkvæmd Íslandsmótsins í knattspyrnu. Þetta eru vangaveltur sem nauðsynlegt að vinnum hratt í og nú þegar, það þarf að koma þessu saman sem fyrst og kynna fyrir félögunum, fá aðila til þess að aðstoða félögin við þessa framkvæmd og fylgja því eftir að þau fari eftir þeim tilmælum sem lögð eru fyrir þau.

Auk þessa eru svo almennar vangaveltur sem snúa að öðru í kringum leikina, t.d. fjöldi áhorfenda. Nú hefur verið talað um að áhorfendafjöldi verði takmarkaður við 100 manns til að byrja með, hugsanlega fleiri ef stúkum er skipt niður í hólf o.s.frv. en það verður a.m.k. einhver takmörkun. Nokkrar praktískar spurningar þarfnast svara, telja t.d. börn inni í þessum takmörkunum? Ef svo er þá þurfa félögin sem nú þegar hafa tapað töluverðum fjármunum að huga að því hvort réttlætanlegt sé að hleypa í áhorfendastúkurnar aðilum sem hingað til hafa ekki greitt fyrir aðgang eins og börnum eða verður sett gjald á alla? Sama á við um svokölluð dómarakort sem veitir dómurum og eftirlitsmönnum frítt á alla leiki. Er réttlætanlegt að þessir aðilar fái frítt á leikina á sama tíma og félögin þurfa kannski að kosta töluverðu til í framkvæmd leikjanna og áhorfendafjöldi er takmarkaður? Ef ekki þá þarf hugsanlega að bregðast við því með bráðabirgðaákvæði í reglugerðum KSÍ auk þess sem þetta fyrirkomulag hefur verið hluti af „umbun“ til dómara fyrir þeirra störf og líklega allir eru sammála um en þarf samt sem áður að hugleiða þegar fjöldatakmarkanir eru í gildi.

Það er mörg horn að líta áður en við getum farið af stað með fótboltann og við þurfum að rífa okkur í gang með undirbúning fyrir þetta mjög svo sérstaka umhverfi sem við komum til með að starfa í á komandi sumri. Það er ekki nóg að mótinu sé raðað niður og svo eigi bara að flauta leikina á, það þarf að undirbúa þetta allt vel í góðu samstarfi félaganna og yfirstjórnar knattspyrnumála, KSÍ, og vonandi hefst sá undirbúningur fyrr en seinna ef hann er ekki þegar hafinn. Það er engin ástæða til þess að vera með einhverja svartsýni fyrir komandi tímabil, það þurfa bara allir að vera upplýstir um þær áskoranir sem við stöndum frammi fyrir, undirbúa alla eins vel og kostur er og njóta svo skemmtilegra leikja hvort sem er á vellinum, í fjölmiðlum eða í beinum útsendingum frá leikjunum.

Þórir Hákonarson
Áhugamaður um íslenskan fótbolta
Athugasemdir
banner
banner