banner
   þri 18. nóvember 2025 23:19
Brynjar Ingi Erluson
Þessar þjóðir eru komnar á HM
Mynd: EPA
Mynd: EPA
Fimm Evrópuþjóðir komu sér inn á HM í kvöld og er því gott að rifja upp hvaða þjóðir eru komnar inn á mótið sem fer fram í Bandaríkjunum, Kanada og Mexíkó á næsta ári.

Austurríki, Belgía, Skotland, Spánn og Sviss tryggðu sér farseðilinn í kvöld en Austurríki og Skotar eru að leika á HM í fyrsta sinn síðan 1998.

Alls eru tólf Evrópuþjóðir búnar að tryggja sæti sitt. Sextán þjóðir fara í umspil í mars og munu aðeins fjórar þeirra komast á lokamótið.

Evrópuþjóðir á HM: Austurríki, Belgía, England, Frakkland, Holland, Króatía, Noregur, Portúgal, Skotland, Spánn, Sviss og Þýskaland.
Umspil: Albanía, Bosnía, Danmörk, Írland, Kósóvó, Norður-Írland, Ítalía, Norður-Makedónía, Pólland, Rúmenía, Slóvakía, Svíþjóð, Tékkland, Tyrkland, Úkraína, Wales.

Sex þjóðir frá Suður-Ameríku eru komin með miða á mótið en það eru Argentína, Brasilía, Ekvador, Kólumbía, Paragvæ og Úrúgvæ.

Bólivía, sem hafnaði í 7. sæti í undankeppninni, fer í umspil á milli heimsálfa en ekki er ljóst hver andstæðingur þeirra verður. Aðeins tvær þjóðir úr umspilinu fá sæti á HM. Þau lið sem eru staðfest í því umspili eru Kongó, Írak og Nýja-Kaledónía, en Jamaíka og Panama eru líklegust til að taka síðustu plássin.

Bandaríkin, Kanada og Mexíkó eru gestgjafar mótsins en CONCACAF fékk alls sex örugg sæti á mótið.

Akkúrat núna eru Curacao, Hondúras og Suriname í lykilstöðu um að komast beint á mótið.

Nýja-Sjáland er eina þjóðin frá Eyjaálfu sem er komin á mótið og þá verða Alsír, Egyptaland, Fílabeinsströndin, Gana, Grænhöfðaeyjar, Marokkó, Senegal, Suður-Afríka og Túnis fulltrúar Afríku (og mögulega Kongó).

Ástralía, Íran, Katar, Japan, Jórdanía, Sádi-Arabía, Suður-Kórea og Úsbekistan eru öll fyrir hönd Asíu, en Írak fer fyrir hönd álfunnar í umspilið.

Dregið verður í umspil Evrópuþjóðanna á fimmtudag og þann 5. desember verður dregið í riðla á HM.
Athugasemdir
banner