banner
   þri 18. nóvember 2025 19:30
Brynjar Ingi Erluson
Ætla að bjóða Heimi nýjan samning - Fær veglegan bónus ef hann kemur Írum á HM
Mynd: EPA
Írska fótboltasambandið er reiðubúið að bjóða Heimi Hallgrímssyni veglegan samning og stóran bónus takist honum að koma landsliðinu á HM á næsta ári. Irish Examiner greinir frá.

Hallgrímur Heimisson, sonur Heimis, greindi frá því í útvarpsþætti Fótbolta.net að Heimir væri með tilboð frá fótboltasambandinu um að framlengja, en væri ekki búinn að taka ákvörðun og ætlaði að skoða málið því hann vildi ekki vera einhverstaðar þar sem stuðningsmenn vilja hann ekki.

Þetta sagði hann í miðju landsliðsverkefni. Mikill hiti var á Heimi sem hafði verið gagnrýndur harðlega af írskum spekingum, en hljóðið er annað í þeim núna eftir að Írar unnu magnaðan 2-0 sigur á Portúgal og tryggðu síðan umspilssætið með hádramatískum 3-2 sigri á Ungverjum með sigurmarki á lokasekúndunum.

Irish Examiner segir að fótboltasambandið vilji framlengja við Heimi og bjóða honum veglega launahækkun ásamt því að gefa honum stóran bónus ef hann kemur liðinu á HM.

Sú upphæð er talin vera yfir eina milljón evra en hann þénar nú um 650 þúsund evrur í árslaun sem landsliðsþjálfari.

Heimir hefur einnig verið orðaður við landsliðsþjálfarstöðuna hjá Indónesíu. Samningur hans við írska sambandið rennur ekki út fyrr en eftir umspilsleikina í mars og því nægur tími fyrir hann til þess að taka ákvörðun.
Athugasemdir
banner
banner