þri 18. nóvember 2025 19:07
Brynjar Ingi Erluson
Lofsamar markvörð Úkraínu eftir vörsluna gegn Íslandi - „Hann á að vera í markinu út ferilinn“
Anatoliy Trubin átti heimsklassa vörslu gegn Íslandi
Anatoliy Trubin átti heimsklassa vörslu gegn Íslandi
Mynd: Fótbolti.net - Haukur Gunnarsson
Andryi Lunin er búinn að missa sætið
Andryi Lunin er búinn að missa sætið
Mynd: EPA
Úkraínski markvörðurinn Anatoliy Trubin fær allt hrós í fjölmiðlum ytra eftir frammistöðuna í 2-0 sigrinum á Íslandi í undankeppni HM um helgina, en einn fyrrum leikmaður er á því að hann eigi að vera í marki landsliðsins út ferilinn.

Lestu um leikinn: Úkraína 2 -  0 Ísland

Trubin var stöðugur á milli stanganna og bjargaði marki þegar lítið var eftir af leiknum.

Guðlaugur Victor Pálsson átti fastan skalla sem Trubin tókst á einhvern ótrúlegan hátt að verja en staðan í leiknum var þá markalaus. Mark þar hefði líklega komið Íslandi langleiðina í umspilið enda hefði jafnteflið dugað.

„Trubin heldur Úkraínu á lífi!

Frábær aukaspyrna frá Alberti inn á teiginn. Guðlaugur Victor rís hæst og skallar boltann vel niður en Trubin með stórfenglega vörslu,“
skrifaði Sverrir Örn Einarsson, fréttamaður Fótbolta.net í textalýsingu leiksins.

Fyrrum leikmaðurinn Viktor Leonenko segir Trubin hafa verið besta mann leiksins og að ef hann mætti ráða yrði hann í markinu út ferilinn.

„Stærsta augnablik leiksins átti sér stað á 77. mínútu. Trubin á að vera aðalmarkvörður landsliðsins þangað til hann leggur hanskana á hilluna eftir þessa vörslu. Aðrir markverðir fá líklega ekki að spila aftur eins og með Lunin.“

„Ég veit ekki einu sinni hvernig nokkur maður gæti varið þetta en samt tókst Trubin að hreinsa boltann. Fyrir mér er hann besti maður leiksins því án hans værum við í vandræðum.“

„Stuðningsmenn völdu Tsygankov besta mann leiksins en það virtist fremur sérstök ákvörðun. Ég er ósammála og líklega hafa bara stuðningsmenn Dynamo Kiev kosið um þetta. Ég hef enga aðra útskýringu á þessu,“
sagði Leonenko.

Úkraínumenn hafa alltaf verið duglegir að framleiða öfluga markverði. Andryi Lunin, markvörður Real Madrid, hefur verið í baráttu um stöðuna, en talið er að hann hafi neitað að vera í landsliðinu þar sem ekki var hægt að lofa honum fastasæti í liðinu.

Samkvæmt Leonenko þá þarf Úkraína ekki að hafa neinar áhyggjur lengur. Ný hetja er fædd og engin brýn þörf á að kalla Lunin aftur í landsliðið.
Athugasemdir
banner
banner