Barcelona vill Díaz frá Liverpool - Úlfarnir skoða markverði - City til í að hlusta á tilboð í Grealish
   þri 04. maí 2021 14:30
Guðmundur Aðalsteinn Ásgeirsson
„Heilt yfir þá vill maður koma Fjölni meðal bestu liða landsins"
Lengjudeildin
Ásmundur Arnarsson, þjálfari Fjölnis.
Ásmundur Arnarsson, þjálfari Fjölnis.
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
Hans Viktor Guðmundsson.
Hans Viktor Guðmundsson.
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
Baldur Sigurðsson.
Baldur Sigurðsson.
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
Dofri Snorrason og Andri Freyr Jónasson.
Dofri Snorrason og Andri Freyr Jónasson.
Mynd: Fjölnir
'Það er mikið af öflugum og jöfnum liðum, og á ég á von jafnri og spennandi deild'
'Það er mikið af öflugum og jöfnum liðum, og á ég á von jafnri og spennandi deild'
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
Hvar endar Fjölnir í sumar?
Hvar endar Fjölnir í sumar?
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
„Ég get ekki sagt að þetta komi beint á óvart," segir Ásmundur Arnarsson, þjálfari Fjölnis í samtali við Fótbolta.net. Fjölni er spáð þriðja sæti Lengjudeildarinnar í sumar.

„Ég held - eins og fleiri hafa nefnt - að þá eru mörg jöfn lið í deildinni. Ég tel að það sé stór hluti af deildinni sem getur gert tilkall í efstu sætin. Við erum eitt af þeim liðum sem ætlar að vera með í þeirri baráttu. Það hefði ekki komið á óvart þótt okkur hefði verið spáð eitt, tvö, fjögur, fimm eða sex."

Hvernig hefur veturinn gengið
Ási segir að það hafi gengið vel á undirbúningstímabilinu en meiðsli lykilmanns setur strik í reikninginn.

„Veturinn hefur gengið ágætlega. Fyrir utan slæm meiðsli hjá Hans Viktori sem setur aðeins strik í reikninginn. Að öðru leyti hefur veturinn gengið nokkuð vel," sagði Ási.

„Það verður að koma í ljós hvernig gengur (með Hans Viktor). Hann fór í aðgerð og er á hækjum eins og er. Það verða teknar skrúfur úr fætinum á honum upp úr miðjum maí og þá má hann fara að stíga í fótinn og beita sér. Svo fer það eftir því hvernig endurhæfingin gengur eftir það, hversu hratt og mikið hann getur komið inn í þetta."

Síðasta tímabil erfitt
Fjölnir hefur verið að flakka á milli deilda síðustu ár en þeir eru mættir núna aftur í Lengjudeildina eftir stutt stopp í deild þeirra bestu. Fjölnir vann ekki leik í fyrra, endaði með sex stig úr 18 leikjum.

„Þetta var auðvitað erfitt tímabil hjá okkur. Við svolítið vissum það fyrir mót. Okkur gekk illa að styrkja liðið og við misstum sterka pósta, sterka leiðtoga og reynslu. Við náðum ekki að fylla inn í það og vorum meðvitaðir um að við vorum að fara inn í mjög erfitt tímabil. Við reyndum hvað við gátum og menn voru allan tímann tilbúnir að leggja allt í þetta," sagði Ási.

Gengið betur að fá inn leikmenn þetta tímabil
Það hefur gengið betur hjá Fjölni að styrkja liðið fyrir þetta tímabil, í Lengjudeildinni, en fyrir það síðasta í efstu deild.

„Við reyndum að styrkja liðið eins og við gátum en það gekk ekki nægilega vel. Svo tekur þessi vetur við og við náum inn í vetur reynslumeiri mönnum, eins og við vorum að reyna í fyrra. Við tökum Baldur Sigurðsson, Dofra Snorra og Ragnar Leósson í viðbót við Andra Frey (Jónasson). Við erum búnir að bæta í reynsluhlutann. Það var eitt af því sem okkur vantaði í hópinn í fyrra. Ungu mennirnir eru reynslunni ríkari líka."

Hver er ástæðan fyrir því að það hefur gengið betur að fá inn reynslumeiri menn fyrir þessa leiktíð?

„Það er erfitt að segja. Það var sérstök staða á öllu Covid-lega séð fyrir tímabilið í fyrra. Það var margt sem spilaði inn í þar. Það var í raun útilokað að fá leikmenn erlendis frá fyrir mót. Það var líka fyrir tímabilið 2019 í næst efstu deild að þá náum við inn góðum leikmönnum sem voru kannski klárir í þessa deild en ekki efstu deildina. Rasmus (Christiansen) var það á sínum tíma eftir aðgerðina sem hann fór í. Kannski er þetta á þessum tímapunkti, leikmenn sem fitta vel inn á þessum stað á þessum tíma en erfiðara að ná því inn í efstu deild þegar þú ert kominn þangað með lið sem er spáð fallbaráttu."

Þekkir Baldur frá því á Húsavík
Baldur Sigurðsson kemur inn til Fjölnis með mikla reynslu. Hann verður spilandi aðstoðarþjálfari í sumar. Hann og Ási þekkjast frá Húsavík í gamla daga.

„Við þekkjumst fyrir. Hann var leikmaður hjá mér í Völsungi í gamla daga. Maður hefur fylgst vel með hans ferli. Hann er frábær karakter og frábær leikmaður, og hann er núna að koma inn sem frábær aðstoðarþjálfari. Hann kemur mjög sterkur inn og ég er gríðarlega ánægður að fá hann í Fjölni."

Mun Baldur spila mikið í sumar eða verður hann aðallega í þjálfaraúlpunni?

„Við reynum að láta hann spila eins og hægt er. Hann er með hellings hlutverk í þjálfarapakkanum en við ætlum honum stórt hlutverk sem leikmaður einnig."

Leikmannahópurinn
Fjölnir hefur fengið inn sterka leikmenn en líka misst sterka pósta frá því í fyrra. Er hópurinn sterkari en hann var í fyrra? Það er spurningin.

„Hann er alla vega ekki síðri. Það er erfitt að vega og meta. Heilt yfir er hann alla vega ekki síðri, jafnvel sterkari," segir Ási en hægt er að skoða lista yfir komnir/farnir í deildinni með því að smella hérna

Framtíðarhorfur
Ási stýrir Fjölni þriðja tímabilið í röð. Eftir fall úr Pepsi Max-deildinni 2018 var hann ráðinn þjálfari Fjölnis í annað sinn. Hann þekkir hverja þúfu í Grafarvogi eftir að hafa þjálfað liðið einnig frá 2005 til 2011. Hverfið í kringum félagið er að stækka og markmiðið er að gera Fjölni að einu besta liði landsins.

„Heilt yfir þá vill maður koma Fjölni meðal bestu liða landsins, maður vill að Fjölnir sé stöðugt lið í efstu deild sem gerir tilkall í toppbaráttu þar. Það er auðvitað margt sem þarf að gerast í félaginu til að það náist. Það hlýtur að vera stefna félagsins að fara þangað, þó menn séu meðvitaðir um að það taki tíma," segir Ási.

„Spurningin er alltaf hvaða leið á að fara. Það eru ekki dýpstu fjárhirslurnar þarna eins og er, en það er mikill mannauður og stórir yngri flokkar. Menn hafa verið að einbeita sér að því, að búa til eigin leikmenn og fylla þar sem þarf til að búa til gott lið. Eins og er, þá erum við í þessari deild, hörkudeild. Við þurfum á öllu okkar að halda til að vera í toppbaráttu þar og komast upp, sem er stefnan okkar. Framtíðarsýnin er að Fjölnir sé eitt af stóru liðunum á landinu."

„Frá ári til árs hefur aðstaðan verið heldur að batna hjá félaginu. Þetta er á leiðinni. Það er bara spurning hvaða tíma það tekur."

Það má búast við mjög jafnri deild í sumar.

„Fyrir fram á ég von á mjög erfiðri og spennandi deild. Þegar maður settist niður og átti að skila spá fyrir deildina þá var það mjög erfitt. Maður sér ekkert lið fyrir fram að sé líklegt til að fara niður úr deildinni. Það er mjög erfitt að spá í það. Það er mikið af öflugum og jöfnum liðum, og á ég á von jafnri og spennandi deild. Ég á von á því að það verði hörkubarátta um alla deild," sagði Ásmundur Arnarsson, þjálfari Fjölnis - sem er spáð þriðja sæti í Lengjudeildini.
Athugasemdir
banner
banner