
Þór kom til baka og vann Gróttu eftir að hafa lent 0-1 undir í fyrri hálfleik. Sigurður Heiðar Höskuldsson þjálfari Þórs rætti við Fótbolta.net eftir leikinn.
Lestu um leikinn: Þór 3 - 1 Grótta
„Mér fannst við stúta þeim í seinni hálfleik. Komum mjög baráttuglaðir og ferskir. Fyrri hálfleikurinn var mjög hægur, einhver leiðinlegasti hálfleikur sem hefur verið spilaður í tveimur efstu deildum á Íslandi. Þeir stóðu á boltanum og voru að senda boltann á milli í öftustu línu, voru ekkert að ógna okkur nema að sparka löngum," sagði Siggi.
„Við náðum að trekkja okkur upp, breyta hvernig við ætluðum að stíga á þá, leikmennirnir gerðu það frábærlega. Mér fannst við miklu miklu betri í seinni hálfleik eftir mjög skrítinn fyrri hálfleik."
Þórsarar hafa farið illa af stað í Lengjudeildinni en hafa nælt í sjö stig í síðustu þremur leikjum.
„Við hefðum allir viljað hafa þau níu. Við eigum leik strax á mánudaginn á móti Grindavík, það er hungur og vilji í liðinu sá ég í seinni hálfleik, ég sá það ekki í fyrri hálfleik. Við sýndum það í seinni og það er það sem við erum búnir að standa fyrir í allan vetur og að einhverju leiti í sumar en ég fékk mjög gott svar. Ég er spenntur fyrir framhaldinu, menn eru að koma til baka eftir meiðsli. Menn eru aðeins þungir eftir þennan leik en við verðum klárir á mánudaginn, við ætlum að safna fleiri stigum," sagði Siggi.
Aron Einar Gunnarsson verður leikmaður Þórs einn daginn. Hann var í stúkunni í kvöle. Er eitthvað að frétta þar?
„Nei bara það að hann er mættur hingað á Pollamótið," sagði Siggi léttur í bragði.