sun 04. október 2020 21:14
Ívan Guðjón Baldursson
Pepsi Max-deildin: Sannfærandi sigur Blika - Valur skoraði sex
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
Breiðablik tók á móti Fylki í baráttunni um Evrópusæti í Pepsi Max-deild karla á sama tíma og topplið Vals mætti Gróttu.

Í Kópavogi gerði Arnór Borg Guðjohnsen, 19 ára sonur Eiðs Smára, fyrsta mark leiksins eftir góða sendingu frá Orra Hrafni Kjartanssyni. Arnór Gauti Ragnarsson var nálægt því að tvöfalda forystu Fylkis en hann skaut yfir markið úr dauðafæri.

Brynjólfur Willumsson refsaði Árbæingum með tveimur mörkum með stuttu millibili. Fyrra markið gerði hann eftir góða sendingu frá Stefáni Inga Sigurðarsyni og það seinna gerði hann úr vítaspyrnu eftir að brotið hafði verið á Stefáni innan teigs.

Blikar tóku alveg stjórn á leiknum og komst Brynjólfur nálægt því að fullkomna þrennuna en inn fór boltinn ekki. Staðan var því 2-1 eftir fjörugan hálfleik.

Í síðari hálfleik fékk Daði Ólafsson sitt annað gula spjald fyrir brot eftir klaufaleg mistök í vörn og skömmu síðar skoraði Elfar Freyr Helgason þriðja mark Blika með skalla eftir hornspyrnu.

Tíu Fylkismenn áttu ekki roð í léttleikandi Blika sem voru óheppnir að bæta ekki nokkrum mörkum við. Atli Hrafn Andrason kom inn af bekknum og gerði fjórða mark heimamanna eftir stungusendingu frá Höskuldi Gunnlaugssyni.

Blikar eru búnir að jafna Stjörnuna á stigum í þriðja sæti en Garðbæingar eiga leik til góða. Fylkismenn eru í sjötta sæti og þurfa að spila betur en þetta til að ná Evrópusæti.

Breiðablik 4 - 1 Fylkir
0-1 Arnór Borg Guðjohnsen ('16)
1-1 Brynjólfur Willumsson ('26)
2-1 Brynjólfur Willumsson ('29, víti)
3-1 Elfar Freyr Helgason ('61)
4-1 Atli Hrafn Andrason ('84)
Rautt spjald: Daði Ólafsson, Fylkir ('54)

Verðandi Íslandsmeistarar Vals gjörsamlega rúlluðu yfir Gróttu er liðin mættust að Hlíðarenda. Valsarar buðu uppá alvöru flugeldasýningu eftir að hafa verið heppnir að fá ekki mark á sig á upphafsmínútunum.

Aron Bjarnason gerði fyrsta mark leiksins eftir sendingu frá Sigurði Agli Lárussyni. Eiður Aron Sigurbjörnsson tvöfaldaði forystuna eftir hornspyrnu og bætti Sigurður Egill þriðja markinu við skömmu síðar með frábæru skoti. Aron átti hornspyrnuna í öðru markinu og stoðsendinguna í þriðja markinu.

Grótta komst nálægt því að minnka muninn en inn fór boltinn ekki og bætti Aron fjórða marki Vals við á 73. mínútu. Lasse Petry gerði fimmta markið eftir skelfileg mistök Hákons Rafns Valdimarssonar og kláraði Patrick Pedersen sýninguna með marki á 85. mínútu.

Valur er með átta stiga forystu á toppi deildarinnar þegar fjórar umferðir eru eftir. Grótta er níu stigum frá öruggu sæti í deildinni og gæti fallið stærðfræðilega í næstu umferð.

Valur 6 - 0 Grótta
1-0 Aron Bjarnason ('13)
2-0 Eiður Aron Sigurbjörnsson ('23)
3-0 Sigurður Egill Lárusson ('25)
4-0 Aron Bjarnason ('73)
5-0 Lasse Petry ('81)
6-0 Patrick Pedersen ('85)
Stöðutaflan
  L U J T ms: mf: mun Stig
0 0 0 0 0 0 0 0 0
Athugasemdir
banner
banner
banner
banner
banner