Franska stórstjarnan Kylian Mbappe er ekki í franska landsliðshópnum sem mætir Belgíu og Ísrael í Þjóðadeild Evrópu í þessum mánuði.
Didier Deschamps, þjálfari Frakklands, tilkynnti hóp sinn á dögunum og ráku margir upp stór augu þegar þeir sáu að Mbappe væri ekki í hópnum.
Þjálfarinn útskýrði val sitt og sagði Mbappe ekki vera í besta ásigkomulaginu þessa stundina.
„Ég talaði við Kylian um stöðuna, sem er svolítið óljós í augnablikinu, sérstaklega eftir að hann kom inn sem varamaður á miðvikudag. Hann á leik á laugardag og vakna enn margar spurningar,“ sagði Deschamps.
„Hann er með vandamál sem er ekki of alvarlegt, en hann þarf meðhöndlun til að ná sér almennilega. Ég er ekki hér til að taka áhættu. Þess vegna er hann ekki hér.“
„Ég efast ekki um skuldbindingu hans við landsliðið, en hann var ekki í besta ásigkomulaginu í síðasta landsliðsverkefni,“ sagði hann enn fremur.
Mbappe hefur skorað 7 mörk í 10 leikjum með Real Madrid á tímabilinu, en þrjú hafa komið úr vítaspyrnu.
Athugasemdir