Rashford yfirgefur Man Utd - Tottenham á eftir Alberti
   fös 04. nóvember 2022 07:42
Elvar Geir Magnússon
FIFA segir þátttökuþjóðum HM að „einbeita sér að fótboltanum“
Verkamenn í Katar.
Verkamenn í Katar.
Mynd: Getty Images
Infantino, forseti FIFA.
Infantino, forseti FIFA.
Mynd: Getty Images
FIFA hefur skrifað bréf til allra 32 þátttökuþjóða HM í Katar þar sem þeim er sagt að „einbeita sér að fótboltanum“ núna þegar rúmar tvær vikur eru í opnunarleik mótsins.

Mikið hefur verið fjallað um mannréttindabrot í Katar og þann mikla fjölda verkamanna sem hafa látið lífið við að byggja leikvanga og önnur mannvirki fyrir mótið.

Gianni Infantino forseti FIFA og Fatma Samoura framkvæmdastjóri skrifa undir bréfið þar sem kallað er eftir því að löndin „einbeiti sér að fótboltanum" auk þess sem sagt er: „Allir einstaklingar eru velkomnir á mótið, óháð uppruna, bakgrunni, trú, kyni, kynhneigð eða þjóðerni."

Sjö nýir leikvangar hafa verið reistir fyrir mótið, flugvellir, vegir og um 100 hótel. Ríkisstjórn Katar segir að 30 þúsund farandverkamenn hafi verið ráðnir bara til að byggja leikvangana. Flestir þeirra frá Bangladess, Indlandi, Nepal og Filippseyjum.

Í febrúar 2021 sagði Guardian að 6.500 farandverkamenn hefðu látist í Katar síðan 2010, þegar Katar vann baráttuna um að fá að halda keppnina.

Margir fyrirliðar á mótinu ætla að vera með sérstök 'One Love' fyrirliðabönd sem tengjast herferð þar sem lögð er áhersla á mannréttindi, jafnrétti og þátttöku ólíkra hópa. Í Katar er samband einstaklinga af sama kyni bannað og einnig er fræðsla um samkynhneigð skilgreind sem glæpur.

Danmörk ætlar að spila í sérstökum 'sorgarbúningum' til að minnast þeirra verkamanna sem hafa látist í Katar. Framleiðandi búninganna, Hummel, sagði fyrirtækið vildi ekki að merki þess yrði sjáanlegt á mótinu.

Mótið verður ekki sýnt í risaskjám á opinberum stöðum í Frakklandi og leikmenn Ástralíu gáfu út myndband þar sem athygli er vakin á mannréttindabrotum í Katar.
Athugasemdir
banner
banner
banner