fös 04. desember 2020 15:45
Elvar Geir Magnússon
Spá því að Jói byrji en Gylfi verði á bekknum
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
Landsliðsvinirnir Jóhann Berg Guðmundsson og Gylfi Þór Sigurðsson mætast í ensku úrvalsdeildinni á morgun þegar Burnley leikur gegn Everton.

Um er að ræða hádegisleikinn og verður flautað til leiks klukkan 12:30.

Guardian hefur birt líkleg byrjunarlið og spáir því að Jóhann Berg verði í byrjunarliði Burnley en Gylfi muni áfram verða geymdur á varamannabekknum hjá Carlo Ancelotti.

Jóhann Berg hefur verið að glíma við meiðsli, hann byrjaði sigurleikinn gegn Crystal Palace í síðustu viku en var ónotaður varamaður í síðasta leik.

Burnley er í fallsæti en liðið hefur verið í miklum meiðslavandræðum í upphafi tímabils. Everton er í áttunda sæti.

Nick Pope snýr aftur í markið hjá Burnley eftir að hafa misst af tapleiknum gegn Manchester City um síðustu helgi.

Hjá Everton eru Seamus Coleman og Lucas Digne á meiðslalistanum og spila ekki á morgun.
Athugasemdir
banner
banner