Arne Slot svaraði spurningum eftir 0-1 sigur Liverpool á útivelli gegn PSG í Meistaradeild Evrópu í kvöld.
Heimamenn í liði PSG voru talsvert sterkari aðilinn en Alisson Becker varði meistaralega til að hjálpa Liverpool að sigra. Harvey Elliott skoraði sigurmarkið á lokakafla leiksins, nokkrum sekúndum eftir að hafa komið inn af bekknum, með einni af tveimur marktilraunum Liverpool í leiknum.
Hann skoraði með sinni fyrstu snertingu eftir góðan undirbúning frá Darwin Núnez sem kom einnig inn af bekknum.
„Það var margt við þennan leik sem minnti mig á leikinn gegn Manchester City. Þetta eru bæði ótrúlega góð lið sem halda boltanum vel og eru með frábæra kantmenn. Ég sagði fyrir leikinn að við værum ekki að fara að koma hingað til að stjórna ferðinni og ég hafði rétt fyrir mér," sagði Slot eftir lokaflautið.
„Eina sem ég get sett út á leik minna manna er að fjórum, fimm eða jafnvel sex sinnum vorum við í stöðu til að komast í gegnum þá en síðasta snertingin brást okkur. Kannski gerðist það útaf því að strákarnir voru þreyttir eftir að hafa varist allan leikinn. Það getur verið erfitt að taka á móti boltanum þegar maður er þreyttur.
„Við vorum að mæta gríðarlega sterkum andstæðingum sem hafa verið að spila frábærlega í Meistaradeildinni. Við vissum að við þyrftum að koma hingað til að verjast, þetta er mjög erfiður útivöllur. Við munum þurfa á tvöföldum stuðningi að halda í seinni leiknum á Anfield."
Slot hrósaði Alisson í hástert að leikslokum og viðurkenndi að Liverpool hafi ekki verðskuldað sigur á Parc des Princes. Hann hrósaði einnig Elliott og Núnez sem komu sterkir inn af bekknum.
„Ég hef þjálfað mjög góða leikmenn á ferli mínum en aldrei þjálfað besta markvörð í heimi fyrr en nú. Hann sannaði það í dag að hann er besti markvörður heims. Við áttum líklega ekki skilið að sigra í þessum leik.
„Darwin var á erfiðum stað eftir Aston Villa leikinn en hann sýndi aftur hversu mikilvægur hann getur verið fyrir okkur. Í sambandi við Harvey þá spurði ég hvort hann væri pirraður út í mig fyrir að gefa sér alltaf bara fimm mínútur hér og þar. Það gerðist aftur í kvöld. Þeir gerðu virkilega vel að hafa þessi úrslitaáhrif á leikinn og ég vil líka hrósa starfsfólkinu fyrir að halda öllum strákunum stöðugt við efnið."
Athugasemdir