Barcelona vill Díaz frá Liverpool - Úlfarnir skoða markverði - City til í að hlusta á tilboð í Grealish
   mán 05. apríl 2021 13:30
Útvarpsþátturinn Fótbolti.net
Addi Grétars bíður eftir miðverði til að bæta við mjög gott lið KA
Arnar Grétarsson, þjálfari KA.
Arnar Grétarsson, þjálfari KA.
Mynd: Fótbolti.net - Sævar Geir Sigurjónsson
Jonathan Hendrickx gekk í raðir KA.
Jonathan Hendrickx gekk í raðir KA.
Mynd: KA
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
„Það er bara svo miklu skemmtilegra að vera að keppa að einhverju. Við munum fara í alla leiki með þá stefnu að vinna, við erum komnir með það sterkan hóp tel ég," segir Arnar Grétarsson, þjálfari KA, en hann var í viðtali í útvarpsþættinum Fótbolti.net á laugardaginn.

KA hefur fengið til sín Daníel Hafsteinsson og Jonathan Hendrickx, leikmenn sem íslenskt fótboltaáhugafólk þekkir vel. Auk þess kom belgíski miðjumaðurinn Sebastiaan Brebels frá Lommel. Ofan á þetta eru öflugir leikmenn komnir af meiðslalistanum.

„Við höfum fengið flotta leikmenn og svo vorum við í fyrra með leikmenn sem voru lengi frá. Elfar Árni (Aðalsteinsson) var frá allt tímabilið. Hann er hörkuleikmaður. Svo voru tvíburarnir frá Dalvík frá stóran hluta. Við höfum endurheimt þessa stráka. Svo er Hallgrímur Jónasson, sem er einnig í þjálfarateyminu. Hann sleit krossbönd í fyrra og það styttist í hann þó það verði aldrei fyrr en seinni hluta móts," segir Arnar.

En hvernig leikmaður er Brebels?

„Þetta er í raun bara átta, 'box to box', þetta er góður fótboltamaður. Hann og Jonathan eru bara miklir fagmenn og miklir atvinnumenn. Þeir koma með þann þátt inn sem er mjög gott. Það er aldrei neitt væl, það er bara farið í það. Þetta er þeirra vinna."

Sögur um að hann væri erfiður
Hendrickx er fyrrum leikmaður Breiðabliks og FH en ýmsar sögusagnir hafa verið í gangi um þennan belgíska bakvörð.

„Maður heyrði einhverjar sögur um að hann væri erfiður. Menn voru búnir að segja manni að passa sig á honum, þegar hann væri búinn að vera í smá tíma þá 'hleypur hann í burtu' og eitthvað þannig. Á sama tíma og þetta var sagt voru þau tvö félög sem vildu helst fá hann þau lið sem hann hafði verið hjá; Breiðablik og FH. Ef þessar sögur væru sannar væri skrítið ef þau væru að reyna að ná honum. Þetta er algjört toppeintak og ég gæti ekki verið sáttari með þá báða," segir Arnar um Belgana tvo.

Í útvarpsþættinum talaði Tómas Þór um að miðað við leikmannahópinn ætti að vera pressa á Arnari að gera eitthvað með þetta lið í sumar.

„Ég tek undir það sem þú ert að segja. Við erum ekki að segja að við ætlum að vinna mótið en við erum með gott lið og getum á góðum degi unnið öll lið. Við förum í alla leiki til að vinna. Við förum inn í mótið með það markmiði að vilja keppa um eitthvað en auðvitað þarf allt að smella saman."

Vonast til að landa flottum spilara
Arnar vonast til þess að fá eitt púsl í viðbót. KA er að vinna í að ganga frá samningi við öflugan erlendan varnarmann sem ku hafa flotta ferilskrá.

„Við höfum í nokkurn tíma verið að reyna að ná í einn leikmann í viðbót. Það hefur gengið brösuglega og Covid dótið er ekki að hjálpa. Maður samt vonast til þess að á næstu dögum munum við ná að landa flottum spilara. Það þarf að græja alla pappíra og svo þarf viðkomandi að fara í sóttkví svo það gæti kannski verið fínt fyrir okkur ef mótinu seinkar um nokkra daga," segir Arnar.

Í viðtalinu segir hann einnig að framkvæmdastjóri KA, Sævar Pétursson, sé að vinna mikilvægt starf.

„Það er mjög gott að hafa Sævar sem framkvæmdastjóra, það er eins og hann þurfi ekki að sofa. Hann er með puttana í öllu og setur sig inn í hluti. Hann hefur vit á fótbolta og er alltaf að spyrja út í allt. Hann er eins og 'Sporting director' er erlendis því hann hefur þekkingu á hlutunum. Þetta hjálpar okkur þjálfurunum og það vantar í mörgum félögum mann sem hefur virkilega þekkingu á hlutunum."

Hægt er að hlusta á útvarpsþáttinn í spilaranum hér að neðan eða í öllum helstu hlaðvarpsveitum.
Útvarpsþátturinn - Láki um landsliðið, Addi Grétars og Birkir Már
Athugasemdir
banner
banner
banner
banner