Maguire gæti elt McTominay til Napoli - Kolo Muani horfir til Englands - Nkunku vill fara frá Chelsea
banner
   sun 05. maí 2024 21:19
Brynjar Ingi Erluson
Besta deildin: Arnar Gunnlaugs sá rautt í fyrsta tapi Víkings - Fram sneri taflinu við gegn Fylki
Magnús Arnar var í essinu sínu gegn Víkingum
Magnús Arnar var í essinu sínu gegn Víkingum
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
Víkingur tapaði fyrsta leik sínum á tímabilinu
Víkingur tapaði fyrsta leik sínum á tímabilinu
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
Arnar Gunnlaugsson fékk rauða spjaldið undir lokin
Arnar Gunnlaugsson fékk rauða spjaldið undir lokin
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
Gummi Magg bætti upp fyrir vítaklúðrið með sigurmarki
Gummi Magg bætti upp fyrir vítaklúðrið með sigurmarki
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
Fylkir er enn í leit að fyrsta deildarsigrinum
Fylkir er enn í leit að fyrsta deildarsigrinum
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
Íslands- og bikarmeistarar Víkings máttu þola sitt fyrsta tap í Bestu deild karla þetta tímabilið er liðið laut í lægra haldi fyrir HK, 3-1, í Kórnum í kvöld. Fram kom þá til baka gegn Fylki og vann 2-1 í Úlfarsárdal.

Víkingar lágu gersamlega á HK-ingum í fyrri hálfleiknum. Liðið fékk fullt af færum en Arnar Freyr Ólafsson, markvörður HK, át allar tilraunir sem hann komu að marki.

Það var því mikill skellur fyrir gestina er Atli Þór Jónasson tók forystuna fyrir HK á 27. mínútu. Magnús Arnar Pétursson fór illa með Pablo Punyed áður en hann lagði boltann á Atla sem setti boltann snyrtilega í fjærhornið.

Víkingar vildu fá rautt spjald á Atla Hrafn Andrason nokkrum mínútum síðar sem sparkaði af krafti í Dejan Djuric við miðsvæðið. Greinilegur ásetningur í brotinu en Atli slapp við rautt spjald.

HK-ingar voru orkumiklir og harðir í horn að taka. Þeir tvöfölduðu forystuna á 55. mínútu. Atli pikkaði boltanum inn á Magnús Arnar, sem lék á Víkingsvörnina og skoraði. Stórleikur frá honum í Kórnum.

Gestirnir minnkuðu muninn í næstu sókn. Aron Elís Þrándarson með skalla eftir fyrirgjöf Ara Sigurpálssonar.

Víkingar voru í leit að jöfnunarmarki en það færðist mikill pirringur í restina. George Nunn braut á Pablo Punyed, sem ákvað að bregðast við með að skalla hann í magann, en uppskar aðeins gult spjald fyrir. Nunn var einnig spjaldaður.

Nikolaj Hansen fékk algert dauðafæri til að jafna leikinn er Aron Elís lagði boltann fyrir Nikolaj sem renndi sér á boltann en hitti hann ekki.

Undir lokin vildu Víkingar fá tvær vítaspyrnur en fengu ekki. Í kjölfarið fékk Arnar Gunnlaugsson, þjálfari Víkinga, rauða spjaldið, en stuttu seinna skoruðu HK-ingar þriðja markið.

Oliver Ekroth missti boltann frá sér og var það Arnþór Ari sem komst í boltann áður en Pálmi Rafn Arinbjörnsson, markvörður Víkings, gat náð til boltans. Arnþór setti hann síðan af yfirvegun í netið og trylltist allt í kjölfarið í Kórnum.

Baráttusigur hjá HK-ingum sem eru fyrstir til að vinna Víkinga í sumar. Þeir spyrna sér af botninum en Víkingar eru áfram á toppnum með 12 stig.

Endurkoma hjá Fram

Fram lagði Fylki að velli, 2-1, í Úlfarsárdal.

Eftir nokkuð tíðindalitlar 20 mínútur voru það Fylkismenn sem tóku forystuna er Halldór Jón Sigurður Þórðarson setti boltann í varnarmann og í nærhornið.

Leikurinn fór almennilega af stað eftir markið. Framarar fengu vítaspyrnu tveimur mínútum síðar er Tiago var tæklaður í teignum.

Guðmundur Magnússon tók vítaspyrnuna en Ólafur Kristófer Helgason varði vítið.

Framarar jöfnuðu tveimur mínútum eftir spyrnuna. Þorri Stefán Þorbjörnsson átti geggjaða sendingu út á vinstri á Fred, sem fann síðan Harald Einar Ásgrímsson í utanáhlaupinu. Hann síðan lyfti boltanum yfir Ólaf í markinu.

Heimamenn voru ekki hættir. Næst var það Guðmundur sem skoraði og bætti upp fyrir vítaklúður sitt. Tiago kom með góða fyrirgjöf á Guðmund sem stangaði boltann á milli lappa Ólafs og í netið.

Seinni hálfleikur var töluvert rólegri en lokamínúturnar í fyrri.

Guðmundur Tyrfingsson fékk dauðafæri til að jafna undir lok leiksins en hitti ekki á markið. 2-1 sigur Fram staðreynd, sem er í 3. sæti Bestu deildarinnar með 10 stig en Fylkir með aðeins eitt stig í neðsta sæti.

Úrslit og markaskorarar:

Fram 2 - 1 Fylkir
0-1 Halldór Jón Sigurður Þórðarson ('30 )
0-1 Guðmundur Magnússon ('34 , misnotað víti)
1-1 Haraldur Einar Ásgrímsson ('36 )
2-1 Guðmundur Magnússon ('37 )
Lestu um leikinn

HK 3 - 1 Víkingur R.
1-0 Atli Þór Jónasson ('27 )
2-0 Magnús Arnar Pétursson ('55 )
2-1 Aron Elís Þrándarson ('58 )
3-1 Arnþór Ari Atlason ('96 )
Rautt spjald: Arnar Bergmann Gunnlaugsson , Víkingur R. ('95) Lestu um leikinn
Athugasemdir
banner
banner
banner