Liverpool er að ganga frá kaupum á argentínska miðjumanninum Alexis Mac Allister frá Brighton en hann verður að öllum líkindum ekki eini miðjumaðurinn sem félagið mun kaupa í sumar.
Nú þegar er talað um það í fjölmiðlum ytra að Liverpool sé að skoða önnur skotmörk núna þegar allt er klappað og klárt með Mac Allister.
Relevo á Spáni segir frá því að Gabri Veiga, miðjumaður Celta Vigo, sé á óskalista Liverpool.
Veiga, sem er 21 árs gamall, skoraði í gær bæði mörkin fyrir Celta í 2-1 sigri á Barcelona. Sigurinn tryggði Celta áframhaldandi veru í spænsku úrvalsdeildinni.
Veiga er eftirsóttur eftir flott tímabil með Celta og hafa Manchester City, Manchester United og Newcastle fylgst náið með honum. En það félag sem leiðir kapphlaupið um hann er Liverpool.
Veiga, sem er metinn á um 40 milljónir evra, er sagður spenntur fyrir þeirri hugmynd að spila fyrir Jurgen Klopp, stjóra Liverpool.
Athugasemdir