Musiala efstur á blaði Man City - Sóknarmenn orðaðir við Arsenal - Colwill orðaður við Liverpool og PSG
   mið 05. október 2022 15:30
Guðmundur Aðalsteinn Ásgeirsson
Atletico og Barcelona leysa stöðuna skrítnu sem var komin upp
Antoine Griezmann.
Antoine Griezmann.
Mynd: Getty Images
Samkvæmt heimildum ESPN þá hafa Atletico Madrid og Barcelona komist að samkomulagi vegna framherjans Antoine Griezmann.

Hinn 31 árs gamli Griezmann er á láni hjá Atletico frá Barcelona annað tímabilið í röð.

Griezmann hefur verið í því á þessu tímabili að koma inn af bekknum í síðari hálfleik og hefur mikið af fólki velt því fyrir sér af hverju það er þannig.

Staðan er þannig að Atletico þarf að kaupa Griezmann á 40 milljónir evra næsta sumar ef hann spilar ákveðinn mínútufjölda og því hefur Atletico spilað honum lítið það sem af er þessu tímabili. Félagið vill ekki borga það mikið fyrir hann.

En samkvæmt heimildum ESPN þá eru félögin tvö búin að komast að samkomulagi um að Atletico þurfi aðeins að greiða rúmlega 20 milljónir evra fyrir hann.

Griezmann kemur því til með að spila meira á næstunni, en leikmaðurinn sjálfur gerði kröfu á það að málið yrði leyst sem fyrst þar sem það styttist í HM. Hann ætlar sér að spila stórt hlutverk í liði Frakklands á mótinu.

Barcelona keypti Griezmann frá Atletico fyrir 120 milljónir evra fyrir þremur árum, en það voru skipti sem gengu engan veginn upp.
Athugasemdir
banner
banner