Mbappé bjargaði stigi
Það voru áhugaverð úrslit sem litu dagsins ljós í efstu deild franska boltans í dag, þar sem Lille átti heimaleik gegn risaveldi PSG og var Hákon Arnar Haraldsson í byrjunarliðinu.
Staðan var markalaus eftir jafnan fyrri hálfleik en Frakklands- og Evrópumeistarar PSG voru sterkari aðilinn í síðari hálfleik. Lille fékk þó sín færi.
PSG þurfti rosalega aukaspyrnu frá Nuno Mendes til að taka forystuna á 66. mínútu og hélt stórveldið forystunni allt þar til á lokakaflanum, þegar 18 ára gömlum Ethan Mbappé var skipt inn af bekknum.
Sjáðu markið
Þessi yngri bróðir stórstjörnunnar Kylian lét strax til sín taka og jafnaði metin fjórum mínútum eftir innkomuna. Meira var ekki skorað svo lokatölur urðu 1-1.
PSG tapaði gegn Marseille fyrir tveimur vikum síðan en er á toppi deildarinnar þrátt fyrir það, með 16 stig eftir 7 umferðir. Einu stigi fyrir ofan Marseille, Strasbourg og Lyon.
Lyon fékk tækifæri í dag til að taka toppsæti deildarinnar en tapaði afar óvænt á heimavelli gegn Toulouse eftir að hafa verið með 1-0 forystu í leikhlé.
Toulouse jafnaði metin á lokamínútunum og gerði sigurmark seint í uppbótartíma.
Strasbourg rúllaði yfir Angers í dag 5-0 eftir að Marseille fór létt með Metz í gær.
Lille 1 - 1 PSG
0-1 Nuno Mendes ('66)
1-1 Ethan Mbappe ('85)
Athugasemdir