Sigurður Arnar Magnússon, leikmaður ÍBV, var allt annað en sáttur með hvernig Eyjamenn kláruðu Íslandsmótið, en hann ræddi við Fótbolta.net eftir lokaumferðina í dag.
Lestu um leikinn: ÍBV 3 - 4 KA
Eyjamenn björguðu sér frá falli fyrir nokkrum vikum en Sigurður Arnar segir frammistöðuna ekki boðlega síðan.
Í dag gat liðið unnið Forsetabikarinn eftirsótta er það mætti KA á Hásteinsvelli, en þar töpuðu Eyjamenn 4-3 og fór því svo að KA tók bikarinn þriðja árið í röð.
„Pirraður yfir því sem við látum gerast inn á vellinum. Mér finnst þetta ákveðin vanvirðing hvernig við enduðum þennan leik og sem ÍBV-ari er ég fúll yfir því.“
„Eins og þú segir eins og æfing. Þetta er ekki boðlegt og óþolandi að menn fari út á völl og leggja sig ekki fram. Það eru menn fyrir utan sem væru mjög til í að vera inn á og leggja sig fram. Pirrandi að við skulum ekki klára leikinn almennilega og mæta betur stemmdir.“
„Það er hægt að horfa á þessa síðustu þrjá leiki eftir að við vorum öruggir þá kom bara karakterleysi að mæta ekki almennilega í þessa þrjá leiki hvort sem þetta séu leikir sem skipta engu máli eða sé æfinga eða ekki. Bara fara út á völl og vilja vinna,“ sagði Sigurður Arnar við Fótbolta.net.
Hann skoraði laglegt mark fyrir Eyjamenn í leiknum, en það mark skipti hann litlu enda tókst liðinu ekki að taka sigurinn.
„Það er leiðinlegt að skora í tapleikjum þá nær maður ekki að njóta þess. Jújú fínt mark en það gefur rosalega lítið.“
Hann segist ánægður með að liðið hafi haldið sér uppi, en sé með óbragð í munni yfir lokakaflanum.
„Eðlileg spá í byrjun móts hvernig við vorum á undirbúningstímabilinu. Við vorum lélegir fram að síðasta leik fyrir mót, en síðan smellur þetta saman á mótinu og komum af krafti inn. Láki á að fá það credit sem hann á skilið og búinn að gera ótrúlega hluti með þetta lið. Lendir í áföllum og allir þekkja þá sögu og nær að koma liðinu aftur í gang og gerir ótrúlega hluti. Við erum á góði róli en svo fær maður óbragð eftir tímabilið að enda þetta svona á þessum þremur leikjum að klára þetta ekki almennilega. Kannski eftir einhvern tíma getur maður horft til baka og verið stoltur af tímabilinu en akkúrat núna er maður svekktur,“
Lokahóf Eyjamanna fer fram í kvöld, en Sigurður ætlar að koma sér í aðeins betri gír fyrir þá skemmtun.
„Ég get ekki verið svona leiðinlegur líka á lokahófinu þannig ég fer heim og set hausinn aðeins í kalda sturtu,“ sagði Sigurður
Besta-deild karla - Neðri hluti
| Lið | L | U | J | T | Mörk | mun | Stig |
|---|---|---|---|---|---|---|---|
| 1. KA | 27 | 11 | 6 | 10 | 45 - 49 | -4 | 39 |
| 2. ÍA | 27 | 11 | 1 | 15 | 37 - 50 | -13 | 34 |
| 3. ÍBV | 27 | 9 | 6 | 12 | 34 - 37 | -3 | 33 |
| 4. KR | 27 | 8 | 7 | 12 | 55 - 62 | -7 | 31 |
| 5. Vestri | 27 | 8 | 5 | 14 | 26 - 44 | -18 | 29 |
| 6. Afturelding | 27 | 6 | 9 | 12 | 36 - 46 | -10 | 27 |
Athugasemdir
























