Olise, Branthwaite, Gutierrez, Guimaraes, Zubimendi og fleiri góðir í slúðurpakka dagsins
banner
   fim 05. nóvember 2020 20:17
Ívan Guðjón Baldursson
Arnar Hallsson tekinn við ÍR (Staðfest)
Mynd: ÍR
Mynd: ÍR
Stjórn ÍR í 2. deildinni hefur ráðið Arnar Hallsson sem þjálfara meistaraflokks karla til næstu þriggja ára. Arnar tekur við liðinu af Jóhannesi Guðlaugssyni sem stýrði liðinu á síðasta tímabili.

Arnar er félaginu að góðu kunnur, hann lék tvö sumur, 1995 og 2007, í búningi félagsins og var ennfremur í þjálfarateymi meistaraflokks félagsins 2010 og 2011 sem aðstoðarþjálfari Guðlaugs Baldurssonar. Arnar kom inn í þjálfarateymi ÍR á ný nú í sumar og átti stóran þátt í að tryggja sætið í 2. deild á næsta ári.

Arnar þjálfaði meistaraflokk Aftureldingar í tvö ár, Afturelding vann 2.deildina árið 2018 og festi sig í sessi í INKASSO deildinni á næsta tímabili undir hans stjórn. Þar áður þjálfaði Arnar 4. og 3. flokk HK sem spilaði eftirtektarverðan fótbolta. Arnar er með UEFA-A þjálfaragráðu og hefur að auki sótt fjölda námskeiða bæði hérlendis og erlendis.

„Við í ÍR erum að hefja metnaðarfulla vegferð uppbyggingar og teljum Arnar vera rétta manninn í það verkefni. Við höfum fylgst með honum úr fjarska um langa hríð og kynntumst honum enn betur á liðnu ári. Arnar kom inn í þjálfarateymi 4. flokks félagsins síðasta vetur þegar hann lét af störfum hjá Aftureldingu og lét strax til sín taka þar. Hann kom síðan inn sem ráðgjafi Jóa á langdregnum lokaspretti Íslandsmótsins og okkur virtist hann ná ákaflega vel til leikmanna liðsins.“ sagði Magnús Þór Jónsson, formaður knattspyrnudeildar ÍR í samtali við Fótbolta.net.

Arnar tekur við af Jóhannesi Guðlaugssyni.

„Ég skulda ÍR talsvert mikið því ég fékk tækifæri til að hefja minn meistaraflokksferil sem leikmaður með félaginu. Ennfremur fékk ég tækifæri til að ganga , í stað þess að vera borinn, af velli í síðasta skipti sem leikmaður eftir langa þrautargöngu í kjölfar fótbrots,“ segir Arnar.

„Ég er búinn að nýta þetta ár vel til að læra meira og endurskoða margt í minni hugmyndafræði. Ég get lofað því að ÍR liðið á næsta tímabili verður með stálvilja, í góðu formi og mun spila skemmtilegan fótbolta.

„Ég er tilbúinn að gefa mikið í mikið í verkefnið og hjálpa strákunum að verða betri í fótbolta. Niðurstaðan verður sú að við munum fara upp um deild og gera okkur gjaldgenga í næstu deild fyrir ofan.

„Aðstaða félagsins er að taka stakkaskiptum og nú er meiri þörf en nokkru sinni að allir ÍR-ingar leggi hönd á plóg. Við þurfum öll að leggja okkur fram um að efla starf knattspyrnudeildarinnar. Því finnst mér ákaflega spennandi að taka við þessu verkefni nú.“


Yfirlýsing frá ÍR:
Knattspyrnudeild ÍR býður Arnar hjartanlega velkominn til starfa, við hlökkum mikið til komandi tíma og höfum fengið öflugan samstarfsmann í því verkefni að koma fótboltanum hjá ÍR á hærri stall!
Athugasemdir
banner
banner